„Sigur gegn plágunni er ekki í höfn. Við megum ekki fagna of snemma eða svo að snúið sé út úr á­gætu orða­til­tæki: Ekki er sopið Co­vid þó í ausuna sé komið,“ sagði Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra í eld­hús­dags­um­ræðum sem fara fram á þingi nú í kvöld. Hún sagði að ríkið hefði ekki efni á að reka stóru kerfin sín með ó­breyttum hætti og boðaði hag­ræðingu í rekstri hins opin­bera.

„Annað nauð­syn­legt verk­efni er að hag­ræða í ríkis­rekstrinum. Við þurfum að kasta þeirri rang­hug­mynd að hag­ræðing feli í sér niður­skurð á þjónustu. Við höfum ein­fald­lega ekki efni á því að reka stóru kerfin okkar með ó­breyttum hætti. Það var orðið ljóst löngu fyrir Co­vid. Þarna er verk­efni sem við getum ekki ein­fald­lega velt yfir á komandi kyn­slóðir. Það væri vond pólitík,“ sagði Þórdís.

Varkárni og regluleg endurskoðun

Hún gerðir þá kórónu­veirufar­aldurinn að um­tals­efni sínu og hrósaði lands­mönnum fyrir góðan árangur í bar­áttu gegn honum. Hún sagði að nú þyrfti að verja þann árangur með því að vera á­fram á­byrg og skyn­söm.

„Reynslan af opnun landa­mæranna hefur verið góð fram til þessa. Fyrstu skrefin voru var­færin, enda er var­kárni nauð­syn­leg, bæði til að skapa traust og til að lág­marka hættuna á bak­slagi. Var­kárni á­samt reglu­legri endur­skoðun í ljósi nýjustu upp­lýsinga hafa verið okkar leiðar­ljós og þau hafa reynst okkur vel,“ sagði ráð­herrann.

Hún fór þá yfir svartar spár um efna­hags­lífið á næstunni og nefndi að reynist þær réttar verði hér á landi meiri sam­dráttur og meira at­vinnu­leysi en varð við banka­hrunið 2008. Hún sagði þá ríkis­stjórnina hafa brugðist við með af­gerandi hætti á ör­fáum vikum.

„Ég vil nota þetta tæki­færi til að lýsa því yfir, að við þessar að­stæður, sem er ekki hægt að kalla neitt annað en neyðar­á­stand, hefur það unnið með okkur en ekki gegn okkur að hafa ríkis­stjórn sem er skipuð flokkum sem endur­spegla breitt svið pólitískrar hug­mynda­fræði frá hægri til vinstri,“ sagði Þór­dís. „Það hefur líka skipt máli við þessar að­stæður að hafa við stjórn­völinn flokka sem allir hafa á­kveðna kjöl­festu og innri styrk og fara ekki á taugum þó að gefi á bátinn.“

Verður að virkja einstaklingsframtakið

Ráð­herrann sagði þá að lands­menn þyrftu ný leiðar­ljós nú í við­spyrnunni eftir far­aldurinn og efna­hags­lægðina. „Leiðar­ljósið verður að vera að virkja ein­stak­lings­fram­takið til að auka aftur tekjur þjóðar­búsins. Ekkert er betur til þess fallið að auka tekjur þjóðar­búsins en at­hafna­frelsi; frjálst ein­stak­lings­fram­tak,“ sagði hún.

„Öryggi, menntun og heil­brigði eru dæmi um verð­mæti sem við erum flest sam­mála um að ríkið eigi að taka þátt í að tryggja okkur. En þegar kemur að tekju­öflun þá stenst enginn at­hafna­frelsi og ein­stak­lings­fram­taki snúning. Frelsi og fram­tak eru orkan sem knýr gang­verk tekju­öflunar þjóðar­búsins,“ sagði Þór­dís.

Ríkið sagði hún að gæti hugað að vél sam­fé­lagsins og tryggt henni súr­efnis­flæði og það væri það sem ríkis­stjórnin ætlaði sér að gera.