Deildarstjóri tæknideildar Fjallabyggðar segir að samþykktum hafi verið framfylgt í máli þar sem hundur var aflífaður eftir að hafa bitið mann. Fjölskylda hundsins hefur gagnrýnt hvernig háttað var á málum og segir að dýrið hafi verið aflífað sólarhring eftir að það beit mann, án þess að fara í skapgerðarmat.

„Samþykkt um hundahald í Fjallabyggð var framfylgt í einu og öllu,“ segir Ármann Viðar Sigurðsson, deildarstjóri tæknideildar Fjallabyggðar, í samtali við Fréttablaðið. Hann gagnrýnir jafnframt þá mynd sem máluð hefur verið af atburðunum í fjölmiðlum, en vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Fengu ekki að kveðja hundinn

Málið hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðan í gær, en DV greindi fyrst frá því. Þar var haft eftir eiganda hundsins, Díönu Mirela, að um hafi verið að ræða fyrsta skiptið þar sem hundurinn hafi bitið á sinni níu ára ævi.

„Hann beit hann á fimmtudaginn og á föstudaginn var hann bara tekinn. Það var bara hringt í pabba minn og sagt við hann að Kasper yrði sóttur um kvöldið. Svo var hann bara sóttur, það var ekkert mikið talað við okkur og lögreglan hringdi svo þegar hann var kominn til Akureyrar og sagði að það yrði að lóga honum vegna plássleysis á Akureyri,“ er haft eftir Díönu sem segir jafnframt að fjölskyldan hafi ekki fengið að kveðja hundinn.

Í umfjöllun Vísis kemur fram að fjölskyldan leiti nú réttar síns og telji að reglum hafi ekki verið fylgt í málinu. „Við viljum ekki að einhver annar lendi í þessu því það er alveg örugglega alveg jafn sárt fyrir einhvern annan,“ sagði Díana við Vísi.

Fréttablaðið náði ekki í lögregluna á Norðurlandi eystra við vinnslu fréttarinnar, og þá vísaði Dýralæknaþjónusta Eyjafjarðar á bæjaryfirvöld þegar hún var spurð út í málið.