Birgir Jóns­son, for­stjóri Play, segir að rann­sókn sem tengist sér hjá em­bætti skatt­rann­sóknar­stjóra snúist um eðli­lega skatta­tækni­lega deilu. Í út­boðs­gögnum vegna komandi hluta­fjár­út­boðs Play er gerð grein fyrir á­lita­málum sem tengjast fé­laginu.

Þar kemur fram að Birgir á­samt Maríu Rúnars­dóttur, stjórnar­manni fé­lagsins séu til rann­sóknar. María vegna mögu­legs skatta­laga­brots vegna van­talins tekju­skatts 2011 og 2012 en sak­sóknari hefur ekki gefið til kynna hvort haldið verði á­fram með rann­sóknina eða hún felld niður.

Þá kemur fram í gögnunum að skatturinn sé með opna rann­sókn á máli Birgis frá 2018 vegna fjár­magns­tekna Birgis þegar hann gegndi stöðu for­stjóra í Rúmeníu. Heldur skatturinn því fram að til tekna Birgis hafi komið 2013 eftir að Birgir hafði flutt lög­heimili sitt aftur til Ís­lands. Málinu er ekki lokið af hálfu skatta­yfir­valda.

Birgir segir um tækni­legan á­greining að ræða „Ég var bú­settur er­lendis í fimm ár og það var á­kveðinn tækni­legur á­greiningur um hvort að eignir sem urðu til á þeim tíma ættu að skatt­leggjast hér eða þar og hvernig ætti að gera þetta,“ segir Birgir.

„Þannig þetta er full­kom­lega eðli­leg skatta­tækni­leg deila en auð­vitað vissu­lega þarf maður að gefa það upp í svona ferli þannig ég treysti því að það fái rétt­láta með­ferð í kerfinu.“

Í út­boðs­gögnunum er einnig vikið að stöðu Einars Arnar Ólafs­sonar, stjórnar­manns í Play, í Skeljungs­málinu sem er enn yfir­standandi vegna sölunnar á Skeljungi fyrir um ára­tug. Ís­lands­banki kærði söluna til lög­reglu 2016.

Auk þess kemur fram í gögnunum að Bogi Guð­munds­son, fram­kvæmda­stjóri sölu-og markaðs­sviðs Play hafi sem einn af upp­haf­legum fjár­festum í Play farið fram á að fyrir­tækið yrði tekið til gjald­þrota­skipta. Sátt hafi náðst um málið og Play greiða tveimur fyrir­tækjum sem tengjast Boga, að því gefnu að við­unandi frammi­staða næst, endur­greiðslu á fjár­mögnun í ár­daga fé­lagsins. Í út­boðs­gögnum segir að það séu smá­vægi­legar greiðslur saman­borið við nú­verandi fjár­hags­stöðu fé­lagsins.