Sú ákvörðun Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta að kalla til herkvaðningar vegna innrásar Rússa í Úkraínu hefur vakið mikinn ugg víða um heim.

Haukur Hauksson fjölmiðlamaður hefur búið í Rússlandi í um þrjá áratugi. Haukur segir Rússa áhyggjufulla eftir að greint var frá herkvaðningunni, fólk óttist að stríðið muni harðna. Pútín sé kominn í erfiða stöðu og grípi til þessara aðgerða ekki síst vegna ástandsins í stjórnmálum innanlands. Ekki sé útlit fyrir að friður komist á í bráð.

„Menn hafa áhyggjur af þessu og almennt líst mönnum illa á þetta. Þetta þýðir að stríðið er að stigmagnast og að aukast væntanlega. Þetta er mjög slæmt og hið versta mál í alla staði fyrir land og þjóð í Rússlandi, líka fyrir Evrópu og framtíð Evrópu. Þetta er mikið áhyggjuefni og menn hafa áhyggjur af frekari uppgangi þjóðernissinna og hægri öfgaafla og stórveldissinna, með nostalgíu gagnvart stórveldistímum Rússlands,“ segir Haukur.

Að sögn Hauks er þetta það sem svartsýnustu menn, meðal annars hann sjálfur, hafi spáð; að styrjöldin myndi aukast og breiðast eitthvað út í álfunni. „Menn eru að fá bréf í pósti, herkvaðningu, þurfa að fara í læknisskoðun. Þar er tekið mittismál, höfuðmál og skóstærðin til að fá herbúninginn sendan og allt þetta. Bréfin koma í pósti og svo kisturnar heim, það er hætt við því þar sem þetta er að aukast,“ segir hann.

Haukur bendir á það sem fram hefur komið, að þeir þrjú hundruð þúsund menn sem Pútín tali um að kalla í herinn séu kannski ekkert vanir hernaði og þá þurfi að þjálfa. Stríðinu muni ekki ljúka í bráð og harmleikurinn halda áfram.

„Þetta sýnir þá að stríðið er komið til að vera. Úkraína verður Sómalía eða Afganistan álfunnar og það verður þarna mjög blóðugt stríð. Það grátlega og sorglega í þessu öllu saman er að tugir þúsunda, hund­ruð þúsunda, eru fallin nú þegar og vafalaust mun fleiri munu deyja í þessum skelfilegu átökum, sem er mikil tragedía. Þetta er algjör harmleikur fyrir álfuna og Evrópu.“

Spurður hvort Pútín finnist sem hann sé kominn upp að vegg svarar Haukur játandi. „Ég held að það sé rétt, Pútín er kominn upp að vegg. Það er spurning hvort herráðið hafi að einhverju leyti platað Pútín út í þetta stríð,“ segir hann.

Haukur segir stöðu Rússlandsforseta erfiða og áfram sé útlit fyrir að átökin í Úkraínu harðni.
Fréttablaðið/Ernir

Að því er Haukur segir gerðu Rússar sér ekki fulla grein fyrir baráttuþreki Úkraínumanna. „Ég held að Pútín sé kannski í of góðum og of miklum tengslum við herráðið og þeir hafi ofmetið afl sitt og möguleika gegn Úkraínumönnum. Svo er alveg ljóst að njósnaapparatið hjá Pútín hefur klikkað á því að átta sig á því hve mikla mótspyrnu Úkraínumenn myndu veita,“ segir hann. „Málið er líka það að ef Pútín núna hættir við og dregur menn heim og annað slíkt, þá er hann búinn að tapa innanlands. Hann getur ekki leyft sér það pólitískt að tapa innanlands.

Sótt sé að Pútín bæði af vinstri og hægri væng stjórnmála, annars vegar kommúnistar og sósíalistar og hins vegar þjóðernissinnar. Innrásin hafi verið vatn á myllu þjóðernissinna. Ef staða forsetans veikist meira sé hætta á hallarbyltingu.

„Pútín er í mjög þröngri og erfiðri stöðu. Ef hann sýnir veiklyndi og linkind í þessum málum, þá er hallarbylting möguleg. Hann er kannski að einhverju marki að koma til móts við þjóðernis- og stórkarlaöfl í Moskvu með þessari herkvaðningu. Hætt er við að það komi einhver herforingjatýpa af hægri kanti, þjóðernis- og herforingjatýpa, í hans stað vegna þess að stemningin í rússnesku þjóðfélagi er þannig núna.“

Haukur segir ákvörðun Pútíns ekki einungis hernaðarlega, þetta sé líka gert vegna ástandsins innanlands. Hann sé undir mikilli pressu hjá þjóðernisöflum sem séu mjög víða í þjóðfélaginu um það að ef hann tapar þessu þá er hann búinn að vera sjálfur pólitískt, Pútín sjálfur.

„Hann er undir gríðarlegri pressu og ég held að þessi tímasetning sé að miklu leyti út af því. Ekki síst út af sókn Úkraínu í Kerson og sérstaklega í Karkov sem kom Rússum í opna skjöldu og var ákveðið fíaskó fyrir Rússa,“ segir Haukur. Þá hafi Pútín fengið þessa pressu, bæði frá kommúnistum og þjóðernissinnum, sem eru nokkuð sterkir, og kirkjunnar mönnum líka. „Það er mikil pressa sem er á Pútín úr tveimur áttum.“