Þingmaður Pírata, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, segir að frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um auknar heimildir lögreglu kalli á að eftirlit með lögreglu verði aukið. Hún sjái ekki að svo sé.

„Við erum að tala um mjög auknar forvirkar heimildir til að fylgjast með fólki sem er ekki einu sinni grunað um að hafa brotið af sér,“ segir Arndís Anna. „Þessi krafa virðist ekki koma frá lögreglunni, ekki þegar um ræðir skipulagða brotastarfsemi,“ bætir hún við.

Frumvarpið hefur verið afgreitt úr ríkisstjórn og má búast við fjölda athugasemda. Arndís Anna segir „algjörlega ótækt“ að auka heimildir lögreglu áður en komið hefur verið á formlegu og skilvirku eftirliti með lögreglu.

„Það er ekki nóg að einhver nefnd fylgist með lögreglu eins og ráðherrann hefur haldið fram. Það er ekki verið að gera nóg til að tryggja skilvirkt og gagnsætt eftirlit með störfum lögreglu og áður en það verður gert erum við ekki sammála því að heimildir lögreglu til forvirkra rannsóknarheimilda og vopnaburðar verði auknar.“

Jón Gunnarsson sagði á Fréttavaktinni á Hringbraut að hann fagnaði allri umræðu um frumvarpið og í raun kallaði hann eftir henni.