Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, segir ekki víst að við frönsku ferða­mennina sé að sakast þegar kemur að út­breiðslu kóróna­veirunnar hér á landi. Ýmsar aðrar kenningar gætu legið að baki og ekki er víst að ferða­mennirnir hafi brotið á sótt­kví.

„Það að kenna þessum tveimur frönsku ferða­mönnum um er ó­sann­gjarnt og á sér enga stoð í raun­veru­leikanum, og ég tek ekki þátt í slíku,“ sagði Kári í sam­tali við AFP. Kári hefur áður sagt að smitin sem nú eru uppi í samfélaginu megi rekja til þess að yfirvöld hafi ekki gripið til hertra aðgerða á landamærunum fyrr.

Flest ný smit sem sama afbrigði veirunnar

Líkt og áður hefur komið fram greindust tveir franskir ferða­menn með veiruna við komuna til landsins í ágúst en ferða­mennirnir reyndust vera með annað af­brigði veirunnar sem hafði ekki áður greinst hér á landi.

Við rað­greiningu á veirunni sem nú finnst í flestum ný­smituðum ein­stak­lingum hér á landi kom í ljós að um var að ræða sama af­brigði og fannst hjá ferða­mönnunum. Í frétt Vísis um málið, sem AFP vísar til, kemur fram að ferða­mennirnir hefðu farið í ein­angrun en virtust síðan ekki fylgja sótt­varnar­reglum.

Ekki sannað að ferðamennirnir hafi brotið sóttkví

Greint var frá því í síðustu viku að ferða­mennirnir yrðu ekki sektaðir vegna málsins en ríkis­lög­reglu­stjóri sagði í svari við fyrir­spurn RÚV að ferða­mennirnir hefðu ekki fylgt sótt­varnar­ráð­stöfunum til hins ýtrasta vegna van­kunn­áttu. Þeir hafi þó ekki brotið ein­angrun.

Í sam­tali við AFP segir Kári að sú kenning, að ferða­mennirnir hafi brotið sótt­varnar­ráð­stafanir, hafi ekki verið sönnuð og að það sé raun­hæfur mögu­leiki að það hafi verið aðrir um borð vélarinnar sem voru smitaðir en greindust ekki við fyrstu skimun.