Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir ótækt að einkafyrirtæki eins og Samherji geti gert atlögu að ríkis- og embættissmönnum, líkt og hann telur að hafi verið gert í kærumáli Samherja á hendur stjórnendum Seðlabankans. Viðtal við Ásgeir birtist í nýjasta tölublaði Stundarinnar.

Samherji kærði fimm stjórnendur Seðlabankans, Má Guðmundsson, Arnór Sighvatsson, Ingibjörgu Guðbjarsdóttir, Rannveigu Júníusdóttir og Sigríði Logadóttur, til lögreglu árið 2019 vegna meintra brota í starfi í rannsókn þeirra á Samherja sem hófst með húsleitum hjá félaginu árið 2012. Kæran liggur enn fyrir sem Ásgeir segir óskiljanlegt.

Útgerðafyrirtækið var einnig harðlega gagnrýnt í vikunni af Félagi fréttamanna og starfsmanna fréttastofu RÚV, sem sendi frá sér yfirlýsingu til stuðnings Helga Seljan fréttamanni. Félagið fordæmir Samherja fyrir persónulegar árásir gegn téðum fréttamanni vegna umfjöllunar hans um starfsemi Samherja í Namibíu.

„Samherji hefur undanfarin misseri valið þá leið að veitast að blaða- og fréttamönnum frekar en að svara efnislega spurningum um starfsemi fyrirtækisins og ásakanir um lögbrot,“ segir í tilkynningu félagsins.

Seðlabankastjóri segir bankann hafa beitt sér fyrir því gagnvart ríkisstjórninni að Alþingi setji lög til að verja embættismenn fyrir slíkum ásóknum. Þörf sé á skýrari lögum til verndar opinberum starfsmönnum svo þeir verði ekki skaðabótaskyldir eða dregnir til refsiábyrgðar fyrir skyldustörf. Vísar Ásgeir til rannsókna á eftirliti á meintum efnahagsbrotum eins og í Samherjamálinu í Seðlabankanum sem dæmi og segir starfsmenn hafa verið hundelta fyrir að sinna starfi sínu.

„Ísland er að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda uppi á kant við þá,“ sagði hann í Stundinni.