Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, kom Önnu Kolbrúnu Árnadóttir, þingmanns Miðflokksins, til varnar og á Alþingi í dag og sagði Önnu hafa greint rétt frá starfsferli sínum. Anna Kolbrún hefur verið sökuð um að greina ranglega frá menntun sinni og starfsreynslu á heimasíðu Alþingis. Greint var frá því í gær að Þroskaþjálfafélag Íslands (ÞÍ) hefði tilkynnt Önnu til Landlæknisembættisins þar sem hún titlaði sig sem þroskaþjálfa í æviágripi sínu á vef Alþingis, án þess að hafa hlotið menntun eða starfsleyfi frá embættinu.

Sjá einnig: Sérkennarar skora á Önnu Kolbrúnu að leiðrétta ferilskrá sína

„Forseti vill taka fram vegna fjölmiðlaumfjöllunar sem orðið hefur um æviferilsskrá Önnu Kolbrúnar Árnadóttur að það mál hefur verið athugað af hálfu Alþingis og er niðurstaða þess skýr, að háttvirtur þingmaður hefur í einu og öllu tilreitt réttar upplýsingar um sinn æviferil,“ sagði Steingrímur á Alþingi í dag. 

„Ef athugað er hvernig þar er skráð er um mislestur að ræða þar sem því hefur verið haldið fram að hæstvirtur þingmaður hafi ranglega titlað sig þroskaþjálfa. Svo er ekki, í þeim tölulið þar sem þingmaður tilgreinir námsferil sinn kemur skýrt fram að hún hefur háskólapróf og önnur sérfræði- og lokapróf á námsferlinum eins og þar er tilgreint sem og próf í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á sérkennslu. Þingmaður hefur hins vegar starfað sem þroskaþjálfi og fagstjóri,“ sagði Steingrímur. 

Þá var greint frá því fyrr í dag að Félag sérkennara hefði skorað á Önnu að leiðrétta ferilskrá sína, en þar sagði að hún hefði verið ritstjóri fagtímaritsins Glæður. Rétt er að Anna Kolbrún sat í ritstjórn blaðsins. Steingrímur segir það þó ekki við Önnu að sakast, heldur hafi það verið skrifstofa Alþingis, sem greindi ranglega frá. 

Sjá einnig: Segja Önnu hafa notað starfsheiti þroskaþjálfa í óleyfi

„[S]kráði hv. þingmaður það ekki inn heldur hefði innskráning skrifstofunnar mátt vera skýrari varðandi það atriði og réttara hefði verið að skrá að hv. þingmaður hefði verið í ritstjórn. Það er ekki við hv. þingmann að sakast. Vonar forseti að þar með sé það mál af heimi,“ sagði Steingrímur.