Í Bændablaðinu er haft er eftir Sindra Sigurgeirssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, að samkvæmt tölum Eurostat þurfi Íslendingar aðeins að verja minni hluta launa sinna til matarinnkaupa en flestar aðrar Evrópuþjóðir. Hlutfallið á Íslandi sé 10,6% tekna. Rúmenar þurfi til að mynda að vinna tvöfalt lengur fyrir matnum.

Sindri bendir á að hlutfallið sé aðeins lægra í fimm Evrópulöndum. Bretar tróna á toppi listans með 9,0% hlutfall. Í Bændablaðinu er vísað til fregna af verðkönnun ASÍ, sem sýndi að verð á vörukörfunni er umtalsvert hærra á Íslandi en á hinum Norðurlöndum.

Sjá einnig: Íslendingar Norðurlandamethafar í háu matvöruverði

Sindri segir að hann hefði viljað sjá svona könnun þegar gengi krónunnar var sterkara. Staðan gjörbreytist við gengisbreytingarnar sem orðið hafa. Hann er á því að það sem mestu skipti sé kaupmáttur launa. „Við þurfum aðeins að nota 10,6% ráðstöfunartekna til matarkaupa og erum þar í 6 sæti af 32 löndum í Evrópu skv. nýjustu tölum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.“

Sindri segir að þetta sé það sem raunverulega segi til um lífskjör fólks. „Matvælaverð er meira en tvöfalt lægra í Rúmeníu en á Íslandi skv. samanburði Eurostat, en þrátt fyrir það þurfa heimili þar í landi að verja meira en tvöfalt hærri hluta af ráðstöfunartekjum sínum til matarkaupa en þau íslensku,“ segir Sindri.