Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar sagði að Kjalölduveita og Héraðsvötn hafi verið færð úr verndarflokki í biðflokk sem hluti af samkomulagi til þess að koma rammaáætlun í gegnum þingið. RÚV greinir frá.

Meirihluti umhverfis-og samgöngunefndar samþykkti um helgina breytingartillögur ríkisstjórnarflokkana og verður áætlunin lögð fram í vikunni. Í breytingartillögunum er lagt til að bæði Kjalöldveita og Héraðsvötn í Skagafirði myndu vera færð í biðflokk og þar með gæfist tækifæri til þess að skoða þessa virkjunarkosti betur.

Umhverfis- og samgöngunefnd er klofinn vegna málsins, en Bjarni Jónsson, annar af tveimur fulltrúum Vinstri grænna skrifaði ekki undir niðurstöður meirihluta nefndarinnar um breytingartillögurnar. Hann mótmælti flutningi Héraðsvatna úr verndarflokk í biðflokk.

Fyrirliggjandi nefndarálit uppfyllir ekki væntingar

„Stjórn Land­verndar telur brýnt að fag­lega sé farið að þegar á­kvarðanir eru teknar um verndun og nýtingu land­svæða. Ramma­á­ætlun er gagn­leg til þess ef rétt er að málum staðið og unnið á fag­legum for­sendum eins og lögð er rík á­hersla á í lögum sem um ramma­á­ætlun gilda.“ Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu sem stjórn Land­verndar sendi frá sér í dag.

Í til­kynningunni segir að stjórn Land­verndar fagnar að Al­þingi ætli sé loksins að ljúka gerð ramma­á­ætluninnar. „En fyrir­liggjandi nefndar­á­lit upp­fyllir ekki væntingar um fag­legar eða vel rök­studdar breytingar á niður­stöðu verk­efnis­stjórnar Ramma­á­ætlunar frá 2016. Náttúru­vernd á Ís­landi yrði fyrir þungu höggi, nái hug­myndir meiri­hluta um­hverfis- og sam­göngu­nefndar Al­þingis um af­greiðslu 3. á­fanga ramma­á­ætlunar fram að ganga.

Land­vernd segir að verndar­gildi ís­lenskrar náttúru hafi aukist á undan­förnum árum, en um­hverfis- og sam­göngu­nefnd Al­þingis hafi fært nokkra kosti sem hafa hátt verndar­gildi í bið­flokk. Land­vernd segir þetta fara þvert á þá stað­reynd að skilningur á verð­mæti víð­erna og sér­stöðu landsins sem hefur aukist í efna­hags­legum og sam­fé­lags­legu sam­hengi í gegnum vöxt ferða­þjónustunnar.

„Stjórn Land­verndar telur að virkjana­aðilar hafa af nógu að taka í fyrir­liggjandi nýtinga­flokkum og því engin nauð­syn sem kalli á til­færslur úr verndar­flokkum og skorar á þing­menn að standa vörð um fag­lega á­kvarðana­töku, stunda ekki hrossa­kaup með verð­mæta ís­lenska náttúru og hafna því að færa kosti úr verndar­flokki í bið­flokk.“

Fagleg vinnubrögð hafi ekki verið í fyrirrúmi

Þá segir í til­kynningunni að það séu enginn hald­bær rök eða gögn í nefndar­á­litinu sem styðja til­færslu á Héraðs­vötnum úr verndar­flokk í bið­flokk. „Ára­tuga­löng bar­átta náttúru­unn­enda fyrir varan­legri sátt um vernd Þjórs­ár­vera og far­vegi Þjórs­ár þar sem finna má fjóra af mestu fossum landsins er að engu gerð.“

Land­vernd segir að til­lagan um að færa Búr­fells­lund úr bið­flokki í nýtingu vekur á­hyggjur. „Að koma fyrir um­fangs­miklum vindorku­verum við and­dyri há­lendisins skerðir um­tals­vert þau verð­mæti sem felast í að­liggjandi víð­ernum og há­lendis­upp­lifun. Nefndin hefur ekki sýnt hvaða gögn hafa komið fram sem styðja færslu á Búr­fells­lundi yfir í nýtinga­flokk.“

„Af framan­sögðu er ljóst að fag­leg vinnu­brögð hafa ekki verið í fyrir­rúmi hjá meiri­hluta um­hverfis- og sam­göngu­nefndar heldur hafa önnur sjónar­mið ráðið för. Náttúra Ís­lands bíður því enn um sinn eftir því að stjórn­völd sýni í verki vilja til að vernda hana.“

Segir náttúrana ekki eiga að líða fyrir svona hrossakaup

Auður Anna var í viðtali á Rás 2 í morgun, en þar sagði hún að tilgangurinn með að færa þetta yfir í biðflokk sé algjörlega óljós. Náttúran eigi ekki að líða fyrir svona hrossakaup.

„Þessir tveir kostar sem þeir færa úr vernd yfir í bið hafa sýnt, eftir gríðarlega mikla vinnu, svo verðmætir út frá náttúruverndarsjónarmiðum að þeir eiga heima í verndarflokki. Tilgangurinn með því að að færa þetta yfir í biðflokk er algerlega óljós, annað heldur en að það hafi þurft að semja til að koma frumvarpinu í gegn og það eru engin fagleg rök, það eru engar ástæður að það sé verið að semja um þetta, náttúran á ekki að þurfa að líða fyrir svona hrossakaup.“

Fréttin var uppfærð eftir að tilkynning barst frá Landvernd um málið. 13.06.2022 kl. 11:01