Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar sagði að Kjalölduveita og Héraðsvötn hafi verið færð úr verndarflokki í biðflokk sem hluti af samkomulagi til þess að koma rammaáætlun í gegnum þingið. RÚV greinir frá.
Meirihluti umhverfis-og samgöngunefndar samþykkti um helgina breytingartillögur ríkisstjórnarflokkana og verður áætlunin lögð fram í vikunni. Í breytingartillögunum er lagt til að bæði Kjalöldveita og Héraðsvötn í Skagafirði myndu vera færð í biðflokk og þar með gæfist tækifæri til þess að skoða þessa virkjunarkosti betur.
Umhverfis- og samgöngunefnd er klofinn vegna málsins, en Bjarni Jónsson, annar af tveimur fulltrúum Vinstri grænna skrifaði ekki undir niðurstöður meirihluta nefndarinnar um breytingartillögurnar. Hann mótmælti flutningi Héraðsvatna úr verndarflokk í biðflokk.
Fyrirliggjandi nefndarálit uppfyllir ekki væntingar
„Stjórn Landverndar telur brýnt að faglega sé farið að þegar ákvarðanir eru teknar um verndun og nýtingu landsvæða. Rammaáætlun er gagnleg til þess ef rétt er að málum staðið og unnið á faglegum forsendum eins og lögð er rík áhersla á í lögum sem um rammaáætlun gilda.“ Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem stjórn Landverndar sendi frá sér í dag.
Í tilkynningunni segir að stjórn Landverndar fagnar að Alþingi ætli sé loksins að ljúka gerð rammaáætluninnar. „En fyrirliggjandi nefndarálit uppfyllir ekki væntingar um faglegar eða vel rökstuddar breytingar á niðurstöðu verkefnisstjórnar Rammaáætlunar frá 2016. Náttúruvernd á Íslandi yrði fyrir þungu höggi, nái hugmyndir meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um afgreiðslu 3. áfanga rammaáætlunar fram að ganga.
Landvernd segir að verndargildi íslenskrar náttúru hafi aukist á undanförnum árum, en umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hafi fært nokkra kosti sem hafa hátt verndargildi í biðflokk. Landvernd segir þetta fara þvert á þá staðreynd að skilningur á verðmæti víðerna og sérstöðu landsins sem hefur aukist í efnahagslegum og samfélagslegu samhengi í gegnum vöxt ferðaþjónustunnar.
„Stjórn Landverndar telur að virkjanaaðilar hafa af nógu að taka í fyrirliggjandi nýtingaflokkum og því engin nauðsyn sem kalli á tilfærslur úr verndarflokkum og skorar á þingmenn að standa vörð um faglega ákvarðanatöku, stunda ekki hrossakaup með verðmæta íslenska náttúru og hafna því að færa kosti úr verndarflokki í biðflokk.“
Fagleg vinnubrögð hafi ekki verið í fyrirrúmi
Þá segir í tilkynningunni að það séu enginn haldbær rök eða gögn í nefndarálitinu sem styðja tilfærslu á Héraðsvötnum úr verndarflokk í biðflokk. „Áratugalöng barátta náttúruunnenda fyrir varanlegri sátt um vernd Þjórsárvera og farvegi Þjórsár þar sem finna má fjóra af mestu fossum landsins er að engu gerð.“
Landvernd segir að tillagan um að færa Búrfellslund úr biðflokki í nýtingu vekur áhyggjur. „Að koma fyrir umfangsmiklum vindorkuverum við anddyri hálendisins skerðir umtalsvert þau verðmæti sem felast í aðliggjandi víðernum og hálendisupplifun. Nefndin hefur ekki sýnt hvaða gögn hafa komið fram sem styðja færslu á Búrfellslundi yfir í nýtingaflokk.“
„Af framansögðu er ljóst að fagleg vinnubrögð hafa ekki verið í fyrirrúmi hjá meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar heldur hafa önnur sjónarmið ráðið för. Náttúra Íslands bíður því enn um sinn eftir því að stjórnvöld sýni í verki vilja til að vernda hana.“
Segir náttúrana ekki eiga að líða fyrir svona hrossakaup
Auður Anna var í viðtali á Rás 2 í morgun, en þar sagði hún að tilgangurinn með að færa þetta yfir í biðflokk sé algjörlega óljós. Náttúran eigi ekki að líða fyrir svona hrossakaup.
„Þessir tveir kostar sem þeir færa úr vernd yfir í bið hafa sýnt, eftir gríðarlega mikla vinnu, svo verðmætir út frá náttúruverndarsjónarmiðum að þeir eiga heima í verndarflokki. Tilgangurinn með því að að færa þetta yfir í biðflokk er algerlega óljós, annað heldur en að það hafi þurft að semja til að koma frumvarpinu í gegn og það eru engin fagleg rök, það eru engar ástæður að það sé verið að semja um þetta, náttúran á ekki að þurfa að líða fyrir svona hrossakaup.“
Fréttin var uppfærð eftir að tilkynning barst frá Landvernd um málið. 13.06.2022 kl. 11:01