Donald Trump, Bandaríkjaforseti, segir að aðildarríki Atlantshafsbandalagsins (NATO) hafi samþykkt að hækka framlög sín til varnarmála í tvö prósent af landsframleiðslu. Hafði hann gagnrýnt þau ríki sem ekki standast þetta viðmið, þá einkum Þjóðverja. BBC greinir frá.

„Við höfum náð ótrulegum árangri í dag,“ sagði Trump á blaðamannafundi sem boðaður var eftir neyðarfund aðildarríkjanna í morgun þar sem þessi mál voru einkum rædd. Angela Merkel hefur sagt að það væri augljós vilji aðildarríkjanna að skuldbinda sig bandalaginu. Trump sagði í gær að næsta markmið væri að hækka framlagsviðmiðið upp í fjögur prósent.

Hefur hann leitt að því líkur að hag Bandaríkjanna væri ef til vill betur borgið utan bandalagsins. Segir hann að það hafi líkast til verið ónauðsynlegt og neitar því nú að það hafi nokkurn tímann komið til greina.

„Ég trúi á NATO,“ sagði Trump að lokum. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur ekki enn tjáð sig um niðurstöðu fundarins.

Uppfært kl. 11:22: AP greinir nú frá að Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hafi sagt yfirlýsingu Trump ekki eiga við nein rök að styðjast. Aðildarríkin hafi ekki samþykkt neinar frekari breytingar um hækkun á framlögum til varnarmála. Frakkar muni halda áfram á þeirri braut að hækka framlagið upp í tvö prósent fyrir 2024 en lýsa yfir efasemdum með viðmiðið um fjögur prósent.