Sema Erla Serdar, stjórn­mála- og Evrópu­fræðingur og stofnandi Solaris, hjálpar­sam­taka fyrir hælis­leit­endur og flótta­fólk á Ís­landi, segir þau ummæli sem Jón Gunnars­son, dóms­mála­ráð­herra, lét falla fyrr í dag, þegar hann boðaði stríð gegn skipu­lagðri glæpa­starf­semi, vera versta mögu­lega nálgun á aukið of­beldi og átök á meðal ungs fólks. Slík nálgun lýsi ó­trú­legri van­þekkingu dóms­mála­ráð­herra á vandanum og rót hans.

Í færslu á Face­book segir Sema Erla að það að segjast ætla í stríð við sam­borgara sína, sem þegar séu jaðar­settir og sýni af sér of­beldis­hegðun, sé ekki lík­legt til að skila hvorki árangri né hvetja fólk til þess að snúa baki við slíka hegðun.

„Þvert á móti ýtir það undir á­fram­haldandi þátt­töku í of­beldis­hópum og styrkir ungt fólk í trú þeirra á lífs­stílnum. Glamúr­myndin sem sumir fjöl­miðlar teikna upp af slíkum lífs­stíl hjálpar heldur ekki til,“ skrifar Sema Erla.

Þá hafi rann­sóknir sýnt fram á að að­gerðir sem feli í sér refsingar og þvinganir af hálfu yfir­valda og lög­reglu séu ekki lík­legar til þess að skila árangri í for­varnar­starfi gegn of­beldis­hegðun ungs fólks.

„Auknar rann­sóknar­heimildir lög­reglu, sem meðal annars gerir lög­reglu kleift að njósna um sam­fé­lags­þegna sína án rök­studds gruns um brota­starf­semi, er ekki for­vörn gegn of­beldis­hegðun. Aukinn vopna­burður lög­reglu er ekki for­vörn gegn aukinni of­beldis­hegðun,“ skrifar Sema Erla.

Ef stjórn­völd vilji koma í veg fyrir aukið of­beldi og of­beldis­glæpi á meðal ungs fólks þurfi að hætta að nálgast við­fangs­efnið út frá öryggis- og varnar­sjónar­miðum einungis.

„Of­beldi ungs fólks er sam­fé­lags­legur vandi og birtingar­mynd þess að grunn­stoðir sam­fé­lagsins eru ekki að­gengi­legar öllum að jöfnu,“ skrifar Sema Erla, og bendir á að rann­sóknir hafi sýnt fram á að til þess að sporna gegn of­beldis­hegðun ungs fólks þurfi að nálgast við­fangs­efnið með heild­stæðari sam­fé­lags­legri nálgun með þátt­töku allra í nær­sam­fé­laginu.

„Það þarf að leggja á­herslu á mark­vissar lang­tíma­forvarnir gegn of­beldi, stuðla að þátt­töku í skipu­lögðu frí­tíma­starfi og minnka þannig fé­lags­lega ein­angrun, og setja á fót úr­ræði sem hjálpa ungu fólki að segja skilið við of­beldis­lífs­stílinn, sem oft er mjög erfitt. Stríðið gegn hryðju­verkum tapaðist. Stríðið gegn eitur­lyfjum tapaðist,“ skrifar Sema Erla.

„Dóms­mála­ráð­herra mun líka tapa „stríði“ sínu gegn skipu­lagðri glæpa­starf­semi ef hann ætlar að nálgast ungt fólk sem þegar upp­lifir að það til­heyri ekki sam­fé­laginu með því að jaðar­setja það enn frekar, ein­angra það og út­skúfa úr sam­fé­laginu.“