Sema Erla Serdar, stjórnmála- og Evrópufræðingur og stofnandi Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, segir þau ummæli sem Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, lét falla fyrr í dag, þegar hann boðaði stríð gegn skipulagðri glæpastarfsemi, vera versta mögulega nálgun á aukið ofbeldi og átök á meðal ungs fólks. Slík nálgun lýsi ótrúlegri vanþekkingu dómsmálaráðherra á vandanum og rót hans.
Í færslu á Facebook segir Sema Erla að það að segjast ætla í stríð við samborgara sína, sem þegar séu jaðarsettir og sýni af sér ofbeldishegðun, sé ekki líklegt til að skila hvorki árangri né hvetja fólk til þess að snúa baki við slíka hegðun.
„Þvert á móti ýtir það undir áframhaldandi þátttöku í ofbeldishópum og styrkir ungt fólk í trú þeirra á lífsstílnum. Glamúrmyndin sem sumir fjölmiðlar teikna upp af slíkum lífsstíl hjálpar heldur ekki til,“ skrifar Sema Erla.
Þá hafi rannsóknir sýnt fram á að aðgerðir sem feli í sér refsingar og þvinganir af hálfu yfirvalda og lögreglu séu ekki líklegar til þess að skila árangri í forvarnarstarfi gegn ofbeldishegðun ungs fólks.
„Auknar rannsóknarheimildir lögreglu, sem meðal annars gerir lögreglu kleift að njósna um samfélagsþegna sína án rökstudds gruns um brotastarfsemi, er ekki forvörn gegn ofbeldishegðun. Aukinn vopnaburður lögreglu er ekki forvörn gegn aukinni ofbeldishegðun,“ skrifar Sema Erla.
Ef stjórnvöld vilji koma í veg fyrir aukið ofbeldi og ofbeldisglæpi á meðal ungs fólks þurfi að hætta að nálgast viðfangsefnið út frá öryggis- og varnarsjónarmiðum einungis.
„Ofbeldi ungs fólks er samfélagslegur vandi og birtingarmynd þess að grunnstoðir samfélagsins eru ekki aðgengilegar öllum að jöfnu,“ skrifar Sema Erla, og bendir á að rannsóknir hafi sýnt fram á að til þess að sporna gegn ofbeldishegðun ungs fólks þurfi að nálgast viðfangsefnið með heildstæðari samfélagslegri nálgun með þátttöku allra í nærsamfélaginu.
„Það þarf að leggja áherslu á markvissar langtímaforvarnir gegn ofbeldi, stuðla að þátttöku í skipulögðu frítímastarfi og minnka þannig félagslega einangrun, og setja á fót úrræði sem hjálpa ungu fólki að segja skilið við ofbeldislífsstílinn, sem oft er mjög erfitt. Stríðið gegn hryðjuverkum tapaðist. Stríðið gegn eiturlyfjum tapaðist,“ skrifar Sema Erla.
„Dómsmálaráðherra mun líka tapa „stríði“ sínu gegn skipulagðri glæpastarfsemi ef hann ætlar að nálgast ungt fólk sem þegar upplifir að það tilheyri ekki samfélaginu með því að jaðarsetja það enn frekar, einangra það og útskúfa úr samfélaginu.“