Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Pírata, segir að minnihlutinn reyni að tefja eðlilega umræðu um braggamálið með popúlisma og rangfærslum um hegningarlagabrot en ummælin lét Dóra falla í Silfrinu á RÚV í morgun.

„Ég vil bara fyrst benda á að fyrir okkur er þetta mjög alvarlegt mál. Innri endurskoðun fór í þetta verkefni með misferlisgleraugu að vopni einmitt til þess að skoða hvort um misferli eða refsivert athæfi hafi verið að ræða,“ segir Dóra sem segir jafnframt að hún hafi verið glöð með verkefnið þar sem sér þyki mikilvægt að það sé unnið af heilum hug.

„Því er þessi tillaga sem liggur fyrir næsta borgarstjórnarfundi um að vísa þessu til saksóknara bara undarleg. Þetta er dæmi um að minnihlutinn heldur áfram að tefja og afvegaleiða umræðuna með popúlisma og rangfærslum.“

Sjá einnig: Veitingamaður á Bragganum: „Skammist ykkar“

Auk Dóru mættu í Silfrið þau Heiða Björg Hilmisdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar, Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins og Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins en líkt og kunnug er lagði hún fram tillögu um að héraðssaksóknari rannsaki Braggamálið en tillagan verður tekin fyrir í borgarráði á þriðjudag. 

Vigdís sagðist í þættinum í dag ekki vantreysta Innri endurskoðun en að þörf væri á því að óháður aðili færi í rannsókn málsins, borgarstjórn hafi verið blekkt árið 2017 varðandi kostnað braggans og einnig í ágúst 2018 varðandi hve mikið fé vantaði í framkvæmdina.

„Það er nefnilega ýmislegt sem kemur ekki fram í skýrslunni. Það var ekki farið í að rekja reikningana. Hvað er á bak við reikningana? Voru verk á bak við reikningana? Hvers lags færslur eru þetta sem liggja til grundvallar þessum 425 milljónum?“