Píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sem ásamt samflokksmanni sínum mótmælti ofbeldi með táknrænum hætti á Alþingi í gær, við hlið Bergþórs Ólasonar, Klaustursmanns og þingmanns Miðflokksins, segir að vegna hans hafi störf í umhverfis- og samgöngunefnd verið í uppnámi í þrjár vikur.

Þórhildur Sunna deilir færslu á Facbook í kvöld, þar sem hún segist rjúfa þögnina. „Stjórnarmeirihlutinn hefur ekki þorað að taka afstöðu í málinu í allan þennan tíma þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir minnihlutans til þess að finna ásættanlega lausn í málinu. Nú hefur meirihlutinn tekið ákvörðun um að hirða eitt þriggja formannembætta minnihlutans af honum til sín, í hendur skuggasamgöngumálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Jóns Gunnarssonar. Hér er verið að refsa stjórnarandstöðunni fyrir gjörðir Miðflokksmanna.“

Hún segir að á sama tími spúi Brynjar Níelsson kvenfyrirlitningartali um víðan völl án þess að við því sé spornað. „Katrín Jakobsdóttir, jafnréttismálaráðherra, samþykkir með þögn sinni að það sé í lagi að Brynjar Níelsson væni konurnar sem hafa sakað Jón Baldvin Hannibalsson um kynferðisbrot, um opinbera smánun. Að þær vilji bara meiða hann. Að þær fari offorsi. Brynjar smættar brotin gegn þessum hugrökku konum, gerir lítið úr þeim með þöglu samþykki stjórnarmeirihlutans.“

Þórhildur Sunna segir að menn sem tali ógeðslega um konur, og vísar meðal annars til ummæla Bergþórs frá Klaustri, fái að gera það óáreittir og án afleiðinga frá stjórnarmeirihlutanum. „Þriggja vikna umræður um hvort Bergþór ætti að víkja úr formannsstóli höfðu engu skilað í gær vegna þess að stjórnarmeirihlutinn var ekki tilbúinn að fella hann úr stóli. Var ekki tilbúinn að taka afstöðu gegn framkomu Bergþórs.“

Hún segir að meðvirkni sé ríkjandi með ofbeldisseggjum á Alþingi. „Mér ofbauð og við Björn gripum til okkar ráða. Lái okkur hver sem vill.“