„Á sama augnabliki og við fögnum því að meirihlutinn taki upp okkar góðu tillögur, þá verðum við smá sorgmædd yfir þeim vinnubrögðum sem meirihlutinn viðhefur,“ segir í bókun Sveinbjargar Vilhjálmsdóttur, fulltrúa minnihluta Garðabæjarlistans í umhverfisnefnd bæjarins. Hún telur meirihluta Sjálfstæðisflokks hafa tekið tillögu Garðabæjarlistans traustataki.

Um er að ræða tillögu um nýtingu húsnæðis að Garðatorgi 1 fyrir starfsemi Hönnunarsafns Íslands og menningarstarfsemi.

„Við í Garðabæjarlistanum fögnum ákvörðun meirihlutans að taka tvær af frábærum tillögum Garðabæjarlistans og setja þær í annan búning og leggja svo fram sem sína tillögu í bæjarstjórn,“ segir í bókuninni þar sem fram kemur að Garðabæjarlistinn hafi í september síðastliðnum lagt fram tillögu um að Garðabær setti á fót sköpunarmiðstöð eða menningarhús.

„Þann 18. október 2018 lagði Garðabæjarlistinn fram tillögu um að Garðabær hefji viðræður við eigendur fasteignar að Garðatorgi 1 með það að leiðarljósi að aukið rými skapist fyrir Hönnunarsafn Íslands og um leið fyrir aðra starfsemi,“ er rifjað upp í bókun Sveinbjargar.

„Það að vísa okkar tillögum í nefndir og láta þær svo hverfa í svarthol tillagna til þess eins að setja þær í annan búning í sínu nafni þykir okkur vera dapurleg vinnubrögð,“ segir áfram í bókuninni þar sem gerð er athugasemd við að tillögur Garðabæjarlistans hafi ekki verið ræddar í nefndum bæjarins. Þeim beri að afgreiða tillögur sem þangað koma.