Mennirnir tveir sem grunaðir eru í hryðjuverkamálinu svokallaða hafa verið ákærðir.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er annar þeirra ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka og hinn fyrir hlutdeild að tilraun til hryðjuverka. Um er að ræða 100 grein a. almennra hegningarlaga.

Auk þess eru þeir ákærðir fyrir vopnalagabrot og annar þeirra fyrir fíkniefnalagabrot.

Gæsluvarðhaldið yfir mönnunum tveimur var auk þess framlengt um fjórar vikur, til sjötta janúar, í héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Sveinn Andri Sveinsson er verjandi annars mannsins.

Ákæran fljótandi

Í samtali við Fréttablaðið gagnrýnir Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars mannsins, ákæruna.

Hann segir að í henni séu þessi meintu skipulögðu hryðjuverk ótilgreind. Ekki komi fram hverjum þau áttu að beinast gegn, eða hvenær þau hafi átt að vera framin.

„Ákæran er mjög fljótandi og við verðum að skoða það vandlega hvort við krefjumst frávísunar,” segir Sveinn sem bendir á að sakborningar verði að geta varist ákærunni í sönnunarfærslu.

„Það þýðir ekki að segja bara að ákærði hafi lamið mann einhvern tímann árið 2022. Menn verða að geta fest hendur á þetta,” bætir hann við.