Helgi H. Sigurðsson, æðaskurðlæknir og forstöðulæknir skurðlækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, fullyrðir að miklir fordómar og fáfræði ríki innan heilbrigðiskerfisins hér á landi vegna svokallaðs æðaþrengingarheilkennis, eða Vascular Compression Syndromes.

Fréttablaðið hefur undanfarið greint frá veikindum tveggja kvenna sem glíma við æðaþrengingarvandamál. Konurnar hafa báðar þurft að leita læknishjálpar á Landspítala vegna veikinda sinna og segja aðstandendur þeirra skilningsleysið algjört. Í báðum tilfellum var talið að veikindin væru vegna geðrænna vandamála.

Neita að taka ábyrgð

Helgi segir með ólíkindum að fáfræði og fordómar gagnvart sjúkdómsflokknum nái alveg upp í efstu raðir Landspítalans.

„Það er forkastanlegt að Landspítali skuli ekki taka að sér greiningu og meðferð svona tilfella,“ segir Helgi og bætir við að ef menn treysti sér ekki til að sinna sjúklingum með þessi vandamál ættu þeir að minnsta kosti að sjá sóma sinn í að hjálpa þeim að fá viðeigandi meðferðir annars staðar.

Að sögn Helga telur Landspítalinn sjúkdóminn í raun ekki vera til og neita að taka ábyrgð á þeim einstaklingum sem glími við vandann.

Útilokunargreining

Helgi segir að beita hafi þurft útilokunargreiningu í þeim tilfellum sem upp hafa komið hér á landi.

Á sneiðmyndum sé hægt að greina klemmu á þindarbandi hins vegar séu sumir með slíkar klemmur alveg einkennalausir.

Þeim verði ekki meint af, aðeins þeir sem fái verki og önnur einkenni þurfi meðferð.

„Þetta er sjaldgæft en þetta er til og það er kannski ekkert skrýtið að það hafi ekki margir reynslu af þessu, greina þetta og meðhöndla. Það þýðir samt ekki að það megi bara loka augunum,“ segir Helgi.

Bent á geðlækningar

Fréttablaðið hefur rætt við aðstandendur þriggja einstaklinga sem hafa glímt við heilkennið og í öllum tilfellum hefur spítalinn ýjað að því að veikindin væru tilkomin vegna geðrænna vandamála.

Helgi segir dæmin sem hann hefur séð hér á landi ekki þau fyrstu né þau síðustu þar sem sjúklingum með þessi veikindi er bent að leita sér geðlækninga. Sama eigi við um sjúklinga í sömu stöðu erlendis.

Aðspurður hvort einkenni veikindanna geti gefið til kynna vandamálið sé geðrænt segir Helgi svo ekki vera. Hann telur ástæðuna skrifast á þekkingarleysi og fordóma.

Neita að taka þátt

Alice Viktoria Kent, 19 ára, og Svanhildur Ósk Guðmundsdóttir, 37 ára, hafa báðar þurft að leita lækningar í Þýskalandi, í tvígang.

Sjúkratryggingar Íslands tóku þátt í fyrri aðgerðum þeirra beggja í Þýskalandi en neita að greiða fyrir þá síðari, sem Helgi telur að hafi verið nauðsynlegar í báðum tilfellum.

Foreldrar Alicar hafa nú þegar greitt rúmar sjö milljónir fyrir síðari aðgerð hennar sem heppnaðist vel.

Svanhildur Ósk hefur ekki lokið síðari aðgerðinni en er á leiðinni út til Þýskalands og verður aðgerðin framkvæmd 19. júlí næstkomandi.

Áætlaður aðgerðakostnaður hjá henni er fimm og hálf milljón króna, fyrir utan ferðakostnað og uppihald.

Skottulæknar

Ástæða synjunar sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gefið upp er að meðferðin sé ekki nægilega reynd og að meðferðaraðili sé hvorki viðurkenndur né traustur.

Helgi segir Sjúkratryggingar búnir að taka þá afstöðu að meðferðaraðilarnir í Þýskalandi séu skottulæknar og það sé vegna ráðlegginga Landspítala.

„Þeir eru náttúrulega að fá upplýsingarnar frá þeim. Þeir hafa ekkert farið og skoðað þetta. Þeir hafa heldur ekki tekið að sér að finna aðra aðila sem þeir eru tilbúnir að vinna með, heldur vísa þessu bara frá sér og einstaklingarnir sjálfir eru að reyna bjarga sér,“ segir Helgi að lokum.