Stéttarfélagið Efling hefur ítrekað afstöðu sína til miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður félagsins, segir erindi embættisins „ólögmætt og marklaust“.
Hún segir að markmið aðgerða sáttasemjarans séu að svipta Eflingarfólk grundvallarrétti sínum.
„[R]étt að taka fram að réttur félagsfólks Eflingar-stéttarfélags felst fyrst og fremst í því að samninganefnd með lýðræðislegt umboð semji um kaup og kjör félagsmanna. Hinar ólögmætu aðgerðir ríkissáttasemjara hafa það markmið að svipta Eflingu-stéttarfélag og félagsmenn þess þeim grundvallarrétti.“
Einnig er fullyrt að ríkissáttasemjari hafi ekki lagaheimild fyrir því fyrirkomulagi kosninga sem hann tilkynnti í gærmorgun.
Þar af leiðandi segist Sólveig ekki ætla aða verða að beiðni embættisins um afhendingu félagatals stéttarfélagsins.
„Hvorki liggur þannig fyrir að beiðnin sé sett fram af lögmætu tilefni né að fullnægjandi lagaheimild standi til hennar.“
Í gær var greint frá því að Efling hefði lýst yfir vantrausti á ríkissáttasemjara. Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari vildi ekki tjá sig um yfirlýsinguna þegar hann var spurður út í hana í kvöld.
Auk þess sendi ASÍ frá sér yfirlýsingu þar sem traust ríkissáttasemjara var sagt skaddað.