Ég held að þetta sé vitlaust blandað, það er of mikið bik í þessu. Þetta er úti um allt, á Reykjanesbrautinni, við Smáralindina, á Gullinbrú. Það oft búið að kvarta undan þessu,“ segir Ólafur Guðmundsson umferðaröryggissérfræðingur um malbikið á vegarkaflanum á Kjalarnesi þar sem banaslys varð á sunnudag.

Hann segir að um léleg vinnubrögð sé að ræða og að margoft sé búið að benda á hættuna sem skapist við malbikun af þessu tagi. „Gæðaeftirlitið er ekki í lagi og það er ekki farið eftir uppskriftinni. Þetta eru að mínu viti léleg vinnubrögð. Þetta verður eins gler,“ segir Ólafur.

„Þegar það blotnar þá verður þetta glerhált. Þetta verður mjög lúmskt. Þetta er gert þegar menn búa til hálkusvæði í tengslum við ökuskóla erlendis, þá setja menn extra mikið bik og úða svo vatni og þá verður þetta flughált,“ bætir hann við.

Ólafur Guðmundsson umferðaröryggissérfræðingur.
Mynd/Aðsend

Segir rétt efni hafa verið afgreitt

Malbikun á vegarkaflanum sem um ræðir var í höndum Loftorku í Reykjavík og unnið var með efni frá Malbikunarstöðinni Höfða. Ásberg K. Ingólfsson, framkvæmdastjóri Malbikunarstöðvarinnar Höfða, segir að rétt efni hafi verið afgreitt frá stöðinni. „Við uppfylltum þær kröfur sem komu frá verkkaupa og hann óskaði eftir. Framleiðsluniðurstöður okkar sýna það,“ segir hann.

Steinefnastærð hafi verið breytt frá hinu hefðbundna en það eigi þó ekki að hafa teljandi áhrif. „Þetta á að vera stöðluð uppskrift,“ segir Ásberg. Hvorki náðist í framkvæmdastjóra né forstjóra Loftorku við vinnslu þessarar fréttar.

Rannsaka hvað fór úrskeiðis

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir það nú í rannsókn hvað fór úrskeiðis. „Mér skilst að allar mælingar í malbikunarstöðinni hafi verið innan marka. Eigi að síður er malbikið of hált þegar það er lagt út. Það er ekki hægt að segja á þessari stundu hvort eitthvað hafi brugðist í framleiðslunni og það er eitt af því sem þarf að skoða gaumgæfilega,“ segir hann. Ýmsir þættir geti spilað inn í, svo sem hvernig völtunin var gerð.

„Við erum veghaldarinn og endanlega berum við ábyrgðina,“ segir G. Pétur. „En verktakinn skilar ekki því sem við viljum fá samkvæmt útboðsskilmálum þannig að þeir bera ábyrgð á því. Við þurfum hins vegar að vita af hverju þetta verður svona,“ segir hann. Þá segir hann Vegagerðina ekki farna að nálgast málið með kröfur á hendur Loftorku í huga. En Loftorka muni sjá um að leggja nýtt malbik yfir kaflann á Kjalarnesi og aðra hála kafla þar sem sama var uppi á teningnum, til dæmis við Gullinbrú. „Við vitum um þessa kafla og fylgjumst með þeim,“ segir G. Pétur og nefnir til dæmis kafla við Vífilsstaði. Kaflarnir séu merktir og séu ekki jafn slæmir og á Kjalarnesi.