Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar í Reykjavík, telur að lokun Reykjanesbrautar á dögunum vegna ófærðar gefi meira tilefni en nokkru sinni til að leggjast í gaumgæfilega skoðun á fluglest milli höfuðborgarinnar og Keflavíkurflugvallar.
Of mikill þrýstingur skapaðist að hennar sögn á innviði Íslands á árinu sem leið. Mannfjölgun á höfuðborgarsvæðinu nemi 12.000 manns á nokkrum misserum. Auk þess hafi verið mjög snjóþungt undanfarið og spáð sé þremur milljónum erlendra ferðamanna innan tíðar. Það segi sig sjálft að mikið aukaálag skapist á innviði. Þegar Reykjanesbrautinni var lokað á dögunum hafi ekki verið til nein varaáætlun og 30.000 manns lent í vanda.
„Við getum ekki lengur stungið höfðinu í sandinn. Það er tilvalið verkefni að úthýsa uppbyggingu lestar til Keflavíkur ef verkefnið reynist hagkvæmt en ákvörðun um þetta er vitaskuld á ábyrgð ríkisins,“ segir Þórdís Lóa.
Hún segir að horfa verði langt fram í tímann er kemur að samgöngum og minnka áherslu á einkabílinn í umhverfislegu tilliti.
„Við þurfum að skoða þetta mál af aukinni dýpt og ákefð með aukna áherslu á almenningssamgöngur í huga.“
Spurð hvort hún tali sama máli og formaður Viðreisnar á Alþingi í þessum efnum, segist Þórdís Lóa ekki hafa hugmynd um það.
Hún tali sem forseti borgarstjórnar og áhugamanneskja um atvinnulíf, ferðaþjónustu og umhverfisvernd.

„Þessi hugmynd er algjörlega þess virði að ræða hana frekar. Það eru ýmsir sem spyrja hvers vegna þeir komist ekki við komu í Keflavík í express-lest,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, inntur eftir viðbrögðum við hugmyndinni.
Hann telur þó að taka ætti umræðu um fluglest úr samhengi við ófærðarpælingar. „Þetta er stærra mál en svo að við hendum upp lest bara af því að það varð ófært tvo daga á síðasta ári. En lest yrði eflaust afskaplega góð viðbót við Keflavíkurflugvöll. Það stendur þó allt og fellur með hagkvæmni.“
Samkvæmt athugunum sem gerðar hafa verið hleypur kostnaður við fluglest að líkindum á 100 til 200 milljörðum króna.