Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri á Vesturlandi, segist ekki telja það vandræðalegt að hans eigið embætti hafi fallið frá því að sækja Inga Tryggvason, formann yfirkjörstjórnar, og aðra í kjörstjórninni til saka fyrir dómi eftir að meðlimir yfirkjörstjórnarinnar höfðu neitað að greiða sektarboð sem lögreglustjóri hafði sent þeim.

„Nei, ég sé ekki að þetta sé vandræðaleg niðurstaða, ekki samkvæmt gildandi löggjöf,“ segir Gunnar. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um niðurstöðuna.

Með gildandi löggjöf vísar Gunnar til þess að eftir talningarklúðrið í Borgarnesi síðastliðið haust varð lagabreyting á kosningalögum sem tóku gildi í upphafi þessa árs. Gunnar telur að samkvæmt nýju lögunum segi hvergi, ólíkt eldri lögum sem giltu þegar kosið var til Alþingis síðastliðið haust, að kjörgögn skuli innsigluð og að brot við því varði viðurlögum.

Ef Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Borgarnesi, og aðrir í yfirkjörstjórn hefðu greitt sektarboðið væru þeir nú fátækari af fé og sætu uppi með viðurkenningu á sekt. Með kosningalögunum sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn hvarf grundvöllur málssóknarinnar að mati lögreglustjóra.

Í almennum hegningarlögum komi fram að hafi refsilöggjöf breyst eftir að verknaður var framinn eigi að dæma eftir nýju lögunum.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sem sat í undirbúningskjörbréfanefnd sem rannsakaði klúðrið í Borgarnesi, telur að lögreglustjóri hafi tekið kolranga ákvörðun.

„Honum ber að dæma eftir gildandi lögum á þeim tíma sem brotið fór fram,“ segir Björn Leví.

Hann segist næstum orðlaus vegna niðurstöðunnar. Ekki síst þar sem lögreglustjóri vísi ranglega til þess að í nýju kosningalögunum sé ekki að finna viðurlög sem dugi til sakfellingar gegn brotum. 136. greinin sé dæmi um það. Þar segi að það varði sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum ef sveitarstjórn, kjörstjórn, utankjörfundarkjörstjóri eða embættismaður hagar fyrirskipaðri framkvæmd laga þessara vísvitandi á ólöglegan hátt eða vanræki hana. Björn Leví segir málinu hvergi nærri lokið.

Ingi Tryggvason segir að niðurstaðan hafi ekki komið sér á óvart.

„Ég átti alltaf von á þessu,“ segir Ingi sem telur að málið hafi verið stormur í vatnsglasi.