Móðir Birnu Brjáns­dóttur er ó­sátt við að nafn dóttur hennar er notað til þess að rétt­læta aukið eftir­lit í mið­bæ Reykja­víkur. Hún óskar eftir á­heyrn og virðingu frá lög­reglu­em­bættinu.

Sigur­laug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjáns­dóttur sem var myrt árið 2017, sendi í dag frá sér til­kynningu þar sem hún gagn­rýnir að lög­reglan noti nafn dóttur hennar í annar­legum til­gangi, eins og hún orðar það. Hún vísar í um­mæli Ás­geirs Þór Ás­geirs­sonar, að­stoðar­lög­reglu­stjóra lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu, sem sagði í við­tali við Vísi að árið 2017 hafi verið sett af stað vinna við að teikna upp öflugra öryggis­mynda­véla­kerfi í mið­borg Reykja­víkur í kjöl­far morðsins. Verk­efnið hefur nú verið sett aftur á stað í kjöl­far leið­toga­fundar Evrópu­ráðsins sem fer fram á Ís­landi síðar á árinu.

Sigur­laug hefur áður gagn­rýnt fram­komu lög­reglunnar og í við­tali við Stundina gerði hún grein fyrir al­var­legum at­huga­semdum sem Nefnd um eftir­lit með lög­reglu gerði við fram­komu lög­reglunnar gagn­vart henni. Hún segir að lög­reglan hafi ekki hlustað á hana og að em­bættið hafi aldrei verið skjól fyrir hana eða aðra að­stand­endur.

Í kjöl­farið á at­huga­semdum Nefndarinnar bað Grímur Gríms­son, sem stýrði rann­sókninni á sínum tíma, Sigur­laugu af­sökunar á fram­göngu hans í fjöl­miðlum og að hafa ekki sýnt henni nægi­­lega nær­­gætni. Það varð til þess að nefndin taldi ekki á­­stæðu til að gera meira vegna kvörtunar Sigur­laugar í þeim þætti málsins.

Sigur­laug segir í bréfinu að henni hafi fallist á hendur þegar hún sá við­tal Ás­geirs Þórs í fjöl­miðlum og að nafn dóttur hennar hafi verið notað til að rétt­læta aukið eftir­lit í mið­bænum. Hún segist vera búin að fá nóg af lög­reglunni.

„Og nú, eftir að ég hef lagt það á mig að segja söguna og biðja um að nafnið hennar sé ekki notað frekar, þá halda þeir á­fram upp­teknum hætti að hlusta ekki á mig, að láta eins og ég hafi aldrei sagt neitt, eins og þetta snúist allt um lög­regluna, nota nafn dóttur minnar eins og hún sé þeirra til þess að þeirra hugðar­efni fái fram­gang og voga sér að nota dæmið um bílinn til þess að færa rök fyrir því að eigi að setja upp mynda­vélar, bílinn sem þeir hunsuðu lengst af, og gerðu lítið úr mér þegar ég nefndi hann,“ segir Sigur­laug.

„Það þarf ekki fleiri mynda­vélar, það þarf lög­reglu sem hlustar á fólk í neyð.“

Bréfið í heild sinni má lesa hér fyrir neðan.

Ég óska eftir á­heyrn og virðingu gagn­vart mér og dóttur minni heitinni frá lög­reglu­em­bættinu. Mér féllust hendur þegar ég sá frétt á Vísi, við­tal við Ás­geir Þór Ás­geirs­son að­stoðar­lög­reglu­stjóra í Reykja­vík, þar sem hann notar nafn dóttur minnar heitinnar í annar­legum til­gangi. https://www.visir.is/.../aukid-eftir-lit-i-kjol-far-mord...

Ég er búin að fá nóg af lög­reglunni. Það var birt við mig við­tal í Stundinni í nóv 2022, https://heimildin.is/grein/16192/ , þar sem ég gerði grein fyrir fram­komu lög­reglunnar við mig og þar sem farið er yfir al­var­legar at­huga­semdir sem Nefnd um eftir­lit með lög­reglu gerði við fram­komu lög­reglunnar við okkur. Nefndin beindi mikil­vægum til­mælum til ríkis­lög­reglu­stjóra sem hún sagðist ekki einu sinni hafa lesið hálfu ári síðar. Ber lög­regla ekki virðingu fyrir eftir­litinu?

Þessi al­var­lega fram­koma lög­reglunnar við mig byggðist ekki síst á því að hún hlustaði ekki á mig, hún hélt hún vissi betur en ég, varðandi barnið MITT sem þeir þekktu ekki neitt og lög­reglan vísaði á bug því sem ég sagði. M.a sagði Ás­geir við mig "fólk hefur bara á­kveðið rými til að lifa" þegar hann var að svara þeirri spurningu minni, af hverju þeir tryðu mér ekki þegar ég vildi að þeir færu að leita. Grímur Gríms­son sagði við mig í skætingi "þetta virkar ekki þannig" þegar ég bað þá að finna bílinn.

Í við­talinu í Stundinni segi ég einnig frá því að Grímur Gríms­son sagði að "lög­reglan mætti alveg við því að bæta í­mynd sína", þess vegna hafi hann tekið við verð­launum fjöl­miðla, sem byggði á þjáningu dóttur minnar, og þegar engum var bjargað. Hver tekur við verð­launum þegar barn er tekið af lífi? NEL tók undir það hjá mér að það kunni að vera til­efni til að skoða að slíkt væri bannað í siða­reglum í sam­hengi við 13 gr siða­reglna lög­reglu, "... enda gæti slík staða leitt til þess að draga mætti hæfi lög­reglu­manns í efa" bætti NEL við.

Lög­reglan var ekki skjól fyrir okkur að­stand­endur eða talaði nokkurn tímann um að það þyrfti að taka til­lit til að­stand­enda. NEL beindi m.a. þeim til­mælum til ríkis­lög­reglu­stjóra að "meta hvort sam­skipti lög­reglu við fjöl­miðla hafi verið með eðli­legum hætti og til eftir­breytni eða hvort lög­reglan hefði átt að setja á­kveðin mörk ekki síst með hlið­sjón af rann­sóknar­hags­munum og hags­munum að­stand­enda dóttur ..." minnar.

Og nú, eftir að ég hef lagt það á mig að segja söguna og biðja um að nafnið hennar sé ekki notað frekar, þá halda þeir á­fram upp­teknum hætti að hlusta ekki á mig, að láta eins og ég hafi aldrei sagt neitt, eins og þetta snúist allt um lög­regluna, nota nafn dóttur minnar eins og hún sé þeirra til þess að þeirra hugðar­efni fái fram­gang og voga sér að nota dæmið um bílinn til þess að færa rök fyrir því að eigi að setja upp mynda­vélar, bílinn sem þeir hunsuðu lengst af, og gerðu lítið úr mér þegar ég nefndi hann. Það þarf ekki fleiri mynda­vélar, það þarf lög­reglu sem hlustar á fólk í neyð.

Eins og kemur fram í siða­reglum lög­reglu þá getur hún ".... að­eins vænst trausts og virðingar vegna starfa sinna að þeir fram­kvæmi hlut­verk lög­reglu með það að leiðar­ljósi að þjóna sam­fé­laginu af heiðar­leika, hlut­lægni, rétt­sýni, nær­gætni, trú­mennsku, þag­mælsku og þekkingu" og síðar "starfs­menn lög­reglu skulu gæta þess að mönnum verði ekki gert tjón, ó­hag­ræði eða miski framar en ó­hjá­kvæmi­legt er eftir því sem á stendur."