Móðir Birnu Brjánsdóttur er ósátt við að nafn dóttur hennar er notað til þess að réttlæta aukið eftirlit í miðbæ Reykjavíkur. Hún óskar eftir áheyrn og virðingu frá lögregluembættinu.
Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjánsdóttur sem var myrt árið 2017, sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem hún gagnrýnir að lögreglan noti nafn dóttur hennar í annarlegum tilgangi, eins og hún orðar það. Hún vísar í ummæli Ásgeirs Þór Ásgeirssonar, aðstoðarlögreglustjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem sagði í viðtali við Vísi að árið 2017 hafi verið sett af stað vinna við að teikna upp öflugra öryggismyndavélakerfi í miðborg Reykjavíkur í kjölfar morðsins. Verkefnið hefur nú verið sett aftur á stað í kjölfar leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fer fram á Íslandi síðar á árinu.
Sigurlaug hefur áður gagnrýnt framkomu lögreglunnar og í viðtali við Stundina gerði hún grein fyrir alvarlegum athugasemdum sem Nefnd um eftirlit með lögreglu gerði við framkomu lögreglunnar gagnvart henni. Hún segir að lögreglan hafi ekki hlustað á hana og að embættið hafi aldrei verið skjól fyrir hana eða aðra aðstandendur.
Í kjölfarið á athugasemdum Nefndarinnar bað Grímur Grímsson, sem stýrði rannsókninni á sínum tíma, Sigurlaugu afsökunar á framgöngu hans í fjölmiðlum og að hafa ekki sýnt henni nægilega nærgætni. Það varð til þess að nefndin taldi ekki ástæðu til að gera meira vegna kvörtunar Sigurlaugar í þeim þætti málsins.
Sigurlaug segir í bréfinu að henni hafi fallist á hendur þegar hún sá viðtal Ásgeirs Þórs í fjölmiðlum og að nafn dóttur hennar hafi verið notað til að réttlæta aukið eftirlit í miðbænum. Hún segist vera búin að fá nóg af lögreglunni.
„Og nú, eftir að ég hef lagt það á mig að segja söguna og biðja um að nafnið hennar sé ekki notað frekar, þá halda þeir áfram uppteknum hætti að hlusta ekki á mig, að láta eins og ég hafi aldrei sagt neitt, eins og þetta snúist allt um lögregluna, nota nafn dóttur minnar eins og hún sé þeirra til þess að þeirra hugðarefni fái framgang og voga sér að nota dæmið um bílinn til þess að færa rök fyrir því að eigi að setja upp myndavélar, bílinn sem þeir hunsuðu lengst af, og gerðu lítið úr mér þegar ég nefndi hann,“ segir Sigurlaug.
„Það þarf ekki fleiri myndavélar, það þarf lögreglu sem hlustar á fólk í neyð.“
Bréfið í heild sinni má lesa hér fyrir neðan.
Ég óska eftir áheyrn og virðingu gagnvart mér og dóttur minni heitinni frá lögregluembættinu. Mér féllust hendur þegar ég sá frétt á Vísi, viðtal við Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóra í Reykjavík, þar sem hann notar nafn dóttur minnar heitinnar í annarlegum tilgangi. https://www.visir.is/.../aukid-eftir-lit-i-kjol-far-mord...
Ég er búin að fá nóg af lögreglunni. Það var birt við mig viðtal í Stundinni í nóv 2022, https://heimildin.is/grein/16192/ , þar sem ég gerði grein fyrir framkomu lögreglunnar við mig og þar sem farið er yfir alvarlegar athugasemdir sem Nefnd um eftirlit með lögreglu gerði við framkomu lögreglunnar við okkur. Nefndin beindi mikilvægum tilmælum til ríkislögreglustjóra sem hún sagðist ekki einu sinni hafa lesið hálfu ári síðar. Ber lögregla ekki virðingu fyrir eftirlitinu?
Þessi alvarlega framkoma lögreglunnar við mig byggðist ekki síst á því að hún hlustaði ekki á mig, hún hélt hún vissi betur en ég, varðandi barnið MITT sem þeir þekktu ekki neitt og lögreglan vísaði á bug því sem ég sagði. M.a sagði Ásgeir við mig "fólk hefur bara ákveðið rými til að lifa" þegar hann var að svara þeirri spurningu minni, af hverju þeir tryðu mér ekki þegar ég vildi að þeir færu að leita. Grímur Grímsson sagði við mig í skætingi "þetta virkar ekki þannig" þegar ég bað þá að finna bílinn.
Í viðtalinu í Stundinni segi ég einnig frá því að Grímur Grímsson sagði að "lögreglan mætti alveg við því að bæta ímynd sína", þess vegna hafi hann tekið við verðlaunum fjölmiðla, sem byggði á þjáningu dóttur minnar, og þegar engum var bjargað. Hver tekur við verðlaunum þegar barn er tekið af lífi? NEL tók undir það hjá mér að það kunni að vera tilefni til að skoða að slíkt væri bannað í siðareglum í samhengi við 13 gr siðareglna lögreglu, "... enda gæti slík staða leitt til þess að draga mætti hæfi lögreglumanns í efa" bætti NEL við.
Lögreglan var ekki skjól fyrir okkur aðstandendur eða talaði nokkurn tímann um að það þyrfti að taka tillit til aðstandenda. NEL beindi m.a. þeim tilmælum til ríkislögreglustjóra að "meta hvort samskipti lögreglu við fjölmiðla hafi verið með eðlilegum hætti og til eftirbreytni eða hvort lögreglan hefði átt að setja ákveðin mörk ekki síst með hliðsjón af rannsóknarhagsmunum og hagsmunum aðstandenda dóttur ..." minnar.
Og nú, eftir að ég hef lagt það á mig að segja söguna og biðja um að nafnið hennar sé ekki notað frekar, þá halda þeir áfram uppteknum hætti að hlusta ekki á mig, að láta eins og ég hafi aldrei sagt neitt, eins og þetta snúist allt um lögregluna, nota nafn dóttur minnar eins og hún sé þeirra til þess að þeirra hugðarefni fái framgang og voga sér að nota dæmið um bílinn til þess að færa rök fyrir því að eigi að setja upp myndavélar, bílinn sem þeir hunsuðu lengst af, og gerðu lítið úr mér þegar ég nefndi hann. Það þarf ekki fleiri myndavélar, það þarf lögreglu sem hlustar á fólk í neyð.
Eins og kemur fram í siðareglum lögreglu þá getur hún ".... aðeins vænst trausts og virðingar vegna starfa sinna að þeir framkvæmi hlutverk lögreglu með það að leiðarljósi að þjóna samfélaginu af heiðarleika, hlutlægni, réttsýni, nærgætni, trúmennsku, þagmælsku og þekkingu" og síðar "starfsmenn lögreglu skulu gæta þess að mönnum verði ekki gert tjón, óhagræði eða miski framar en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur."