Baráttukonan Sema Erla Serdar sakar embætti ríkislögreglustjóra um að fara með lygar í bréfi sínu til umboðsmanns Alþingis.
Í bréfinu sem um ræðir er því haldið fram að lögreglan hafi ekki getað tryggt öryggi Hussein Hussein, fatlaðs manns, er honum var vísað úr landi í nóvember vegna mótmælenda.
„Allar áætlanir breyttust þó verulega þar sem lögregla varð að flytja viðkomandi úr búsetuúrræði fyrr en stóð til og á hótel, og svo fljótlega í kjölfarið af hótelinu og til Keflavíkurflugvallar. Ástæða breyttrar áætlunar var að lögreglu gat ekki lengur tryggt öryggi á vettvangi, bæði i búsetuúrræði sem og á viðkomandi hóteli vegna mótmæla sem voru hafin og einstaklinga sem hugðust jafnvel koma í veg fyrir brottflutninginn.“
Þetta segir í bréfinu, en Sema Erla, sem var á vettvangi, vill meina að það sé rangt.
„Hér er Ríkislögreglustjóri að ljúga mjög alvarlegum sökum upp á almenna borgara!“ skrifar hún á Facebook-síðu sína um málið. „Ég er ein af þeim sem leitaði uppi fjölskylduna eftir að hún var frelsissvipt, færð af heimili sínu og sett í felur, í þeim eina tilgangi að varpa ljósi á mannréttindabrot stjórnvalda sem voru að eiga sér stað í skjóli nætur!“
Sema segir að mótmælendurnir hafi verið um það bil sex talsins og þá hafi fréttamaður og ljósmyndari frá RÚV einnig verið á vettvangi. Í samanburði hafi lögregla verið sýnileg allt í kringum hótelið.
„Það er auðvitað hlægilegt að Ríkislögreglustjóri skulu halda því fram að lögreglan, sem taldi á tímabili fleiri en 20 lögregluþjóna, hafi ekki getað „tryggt öryggi“ Hussein og fjölskyldu fyrir mótmælendum.“ segir hún.
Sema vill meina að fjölskyldunni hafi staðið meiri ógn af lögreglunni heldur en af mótmælendum á svæðinu. „Það stóð aldrei til að reyna að koma í veg fyrir brottvísunina og það var ALDREI reynt að hindra störf lögreglu. Við vitum það alveg að við hefðum öll verið handtekin ef svo hefði verið.“
Þá gagnrýnir Sema að umboðsmaður Alþingis hafi hætt skoðun málsins í ljósi svara Ríkislögreglustjóra. Hún segir það með öllu óásættanlegt.
„Ég krefst þess að Ríkislögreglustjóri dragi þessi ósannindi til baka og biðjist afsökunar á að ljúga upp á almenna borgara!“ segir hún í lok færslu sinnar.