Móðir drengsins sem lögregla hafði afskipti af í strætó í gær greinir frá því að aftur hafi lögregla reynt að handsama hann.
„AFTUR! ÞETTA ER BRJÁLÆÐI,“ segir móðir drengsins á Facebook, en hún segir að lögreglan hafi mætt í bakarí þar sem hún og sonur hennar voru stödd.
„Einu sinni eru mistök.... TVISVAR,“ segir móðirin og telur nú að sonur hennar sé fangi á sínu eigin heimili, hann er ekki einu sinni öruggur með henni.
Hún segir að þetta sé ekki einungis lögregluvandamál, heldur einnig samfélagsvandamál og heldur hún því fram að maður í Teslu bíl hafi hringt í lögregluna.
Atvikið í gær þegar lögreglan hafði fyrst afskipti af drengnum vakti mikla athygli. Embætti Ríkislögreglustjóra sendi frá sér tilkynningu þar sem embættinu fannst leitt að drengurinn hafi orðið hluti af aðgerðum lögreglu.
Hvatti embættið til varkárni í samskiptum um þetta mál og önnur mál sem tengjast minnihlutahópum.
Lögreglan leitar nú Gabríel Douane Boama sem slapp úr haldi lögreglu í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag. Gabríel var í héraðsdómi þar sem mál hans var til meðferðar.
Hann er enn ófundinn.