Ólafur Páll Gunnarsson, framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins hjá Landsbankanum, segir að mistök hafi verið gerð í útfærslu laga um sérstaka úttekt séreignarsparnaðar sem heimiluð var í heimsfaraldri Covid og að lögin sjálf uppfylli ekki, að hans mati, lágmarkskröfur um skýrleika, jafnræði og réttlæti.

Fjallað var um lagasetninguna og afleiðingar hennar í Fréttablaðinu um helgina en þar kom fram að lífeyrisþegar sem tóku út sparnað sinn samkvæmt þessari heimild lentu fjölmargir í skerðingu og skuld við Tryggingastofnun þrátt fyrir að sérstaklega væri tekið fram að engar skerðingar ættu að fylgja úrræðinu. Ástæða skerðingarinnar var röng skráning úttektarinnar sem gengið hefur erfiðlega að fá breytt.

„Landsbankinn og Íslenski lífeyrissjóðurinn hafa leiðrétt skil þeirra sjóðfélaga sem hafa haft samband og óskað eftir leiðréttingu. Það þarf hins vegar að leiðrétta þetta gagnvart öllum og það ættu stjórnvöld að vera að skoða. Af þeim sem lenda í skerðingum eru margir sem eru ekki í stöðu til að verja réttindi sín eða krefjast leiðréttinga,“ segir Ólafur Páll í samtali við Fréttablaðið.

Spurður hvort það komi til greina að sjóðurinn hreinlega yfirfari allar úttektir sjóðfélaga segir hann þær skipta þúsundum og að það væri betra ef stjórnvöld tækju það að sér að leiðrétta þetta.

Ólafur Páll segir að málið hafi í haust, þegar ljóst var að úrræðið hefði leitt til skerðinga, verið rætt stuttlega á samráðsvettvangi lífeyrissjóðanna.

„Þegar þetta kom upp í haust þá ræddi ég við aðra framkvæmdastjóra og þetta kom upp á samráðsvettvanginum. Eftir samtöl mín við forsvarsmenn annarra vörsluaðila og lífeyrissjóða er ljóst að fólk gerði sér almennt ekki grein fyrir þessari stöðu þegar lögin voru sett enda komst málið ekki upp á yfirborðið fyrr en síðasta haust þegar ljóst var að bætur sumra voru skertar og annarra ekki. Við settum okkur strax í samband við stjórnvöld, það er ráðuneytið og skattinn, en þar virtist ekki vera vilji til að leiðrétta þetta með almennum hætti,“ segir Ólafur Páll og bætir við:

„Stjórnvöld ættu reyndar að sjá sóma sinn í því að endurskoða þessar skerðingar og afnema í eitt skipti fyrir öll enda snerta þær fyrst og fremst tekjulægsta hópinn.“

Úrræðið var eitt af þeim sem ríkisstjórnin kynnti í heimsfaraldri.

Hann segir að þegar stjórnvöld lögðu úrræðið til hafi þau í raun bara opnað úttekt fyrir alla sem áður var takmörkuð við þau sem eru eldri en 60 ára eða öryrkjar.

„Það var ekkert verið að velta því fyrir sér hver réttaráhrifin væru og ég held að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því að þetta hefði svona ólík réttaráhrif, og ekki stjórnvöld heldur,“ segir Ólafur Páll og bætir við:

„Við skynjum pirring hjá okkar sjóðfélögum og leiðréttum þegar þau hafa samband en þetta er engin lausn. Þetta snýst um bótaflokk þeirra sem eru hvað tekjulægst,“ segir Ólafur og að þessi mistök sem voru gerð við framkvæmd úrræðisins séu afar óheppileg. Hann bendir auk þess á að óhagkvæmnin sé gríðarleg þegar hvert mál þarf að fara til yfirferðar hjá Ríkisskattstjóra og mögulega yfirskattanefnd eins og raunin er með tvö mál nú þegar.

Fréttin hefur verið leiðrétt og fyrirsögn breytt þann 10.5.2022 klukkan 10:12. Ólafur Páll, viðmælandi fréttarinnar, segir ekki að lögin sjálf séu mistök heldur að mistök hafi verið gerð við útfærslu laganna og hefur fréttin verið uppfærð og leiðrétt í samræmi við það.