Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, tjáði sig um loftslagsbreytingar í ræðu á opnu málþingi NATO í aðdraganda leiðtogafundar bandalagsins sem hefst í Madríd í dag. Sagði hann loftslagsbreytingar hafa stigmagnandi áhrif á hamfarir og að þess vegna yrði NATO að vera vakandi fyrir þeim.

„Í dag birti ég fyrsta mat okkar um það hvernig loftslagsbreytingar hafa áhrif á öryggi okkar, herbúnað okkar, uppsetningar og aðgerðir, að ógleymdri þrautseigju okkar og borgaralegum viðbúnaði,“ sagði Stoltenberg.

Stoltenberg sagðist vilja sjá Atlantshafsbandalagið uppfylla „gullviðmiðið“ í viðbrögðum við loftslagsbreytingum út frá öryggissjónarmiðum. Hann tók fram að í grundvallarstefnu NATO sem áætlað er að verði samþykkt á leiðtogafundinum sé bent á loftslagsbreytingar sem eina helstu áskorun samtímans.

Stoltenberg sagði að Atlantshafsbandalagið yrði að útvega herjum sínum nauðsynlegan búnað til þess að þeir geti starfað í miklum hita og miklum kulda. Þá þyrfti að þjálfa hermenn í hamfarahjálp og treysta innviði bandalagsins gegn hækkandi yfirborði sjávar.

Þá sagði Stoltenberg að NATO yrði að draga úr loftslagsáhrifum hernaðaraðgerða sinna. Þróuð hefði verið sérstök aðferðafræði til að mæla losun bandalagsins á gróðurhúsalofttegundum og öll aðildarríkin eigi að fá aðgang að henni. Með henni sé útfært hvaða losun eigi að telja og hvernig eigi að meta hana. „Þetta er nauðsynlegt, því það sem er mælt má skera niður,“ sagði Stoltenberg.

Jafnframt sagði Stoltenberg að „græna orkubyltingin“ sem stæði nú yfir gæti orðið mikil bón í hernaðarmálum. „Í dag eru bestu bílarnir þegar orðnir rafbílar. Ég tel að í framtíðinni verði þróuðustu herfarartækin og þrautseigustu herirnir þau sem ekki ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.“