Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur sett til hliðar 20 milljónir króna síðan 2016 til þess að þróa spákerfi um öldugang í Reynisfjöru. Það hefur hins vegar ekki nýst sem skyldi.

„Það er hægt að finna þetta spákerfi á heimasíðu Vegagerðarinnar, en það eru engar leiðbeiningar um hvernig á að nota það eða hvernig það getur nýst fólki í fjörunni,“ segir Íris Guðnadóttir, landeigandi við Reynisfjöru. „Það veit enginn hvernig á að nota það, því það hefur ekkert verið fjallað um það. Þetta er bara einhver grænn, gulur, rauður áhættustuðull, en hann segir ekkert um aðstæðurnar í fjörunni,“ segir hún.

Umræða um öryggisráðstafanir í Reynisfjöru hefur tekið sig upp að nýju eftir að banaslys varð þar á föstudaginn síðasta þegar öldurnar hrifsuðu erlendan ferðamann á áttræðisaldri í sjóinn. Þetta er fimmta banaslysið á sjö árum.

Íris segir stjórnvöld skýla sér bak við stofnun starfshópa og gerð áhættumata. Áhættumat í Reynisfjöru hafi verið í vinnslu í þrjú ár.

Íris þvertók aftur fyrir að hún eða aðrir landeigendur hefðu staðið í vegi öryggisráðstafana. Í nóvember hafði hún borið af sér ásakanir þess efnis af hálfu verkefnastjóra Landsbjargar og líkti þeim við „blauta tusku“. Nánar á frettabladid.is.