Þórir Gunnarsson myndlistarmaður hefur í tvígang sótt um í myndlist við Listaháskóla Íslands en í hvorugt skiptið fengið inngöngu. Þórir er fatlaður og segist telja það ástæðu þess að hann fái ekki að nema við skólann.

„Ég sótti um í fyrra og fékk viðtal en komst ekki inn, núna fékk ég ekki einu sinni viðtal,“ segir Þórir. Hann hefur áður bent á fá tækifæri fatlaðs fólks til framhaldsmenntunar og segir að eftir framhaldsskóla sé fátt í boði.

Samkvæmt íslenskum lögum á fatlað fólk rétt til náms með viðeigandi stuðningi og í Háskóla Íslands er í boði starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun. Þórir hefur bent á að valkostirnir til framhaldsnáms séu ekki fullnægjandi, til að mynda sé ekki í boði að fara í almennt háskólanám, iðnnám eða listnám.

Þórir hefur starfað sem listamaður í áraraðir og er þekktur undir listamannanafninu Listapúkinn. Hann hefur selt fjölda málverka og var á síðasta ári útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.

Inntökuskilyrði í myndlistarnám við Listaháskólann miða við að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi. Skólanum er þó heimilt að veita umsækjendum inngöngu búi hafi þeir þekkingu og reynslu sem teljist fullnægjandi undirbúningur.

Mynd/AntonBrink

Telur sig eiga fullt erindi í námið

Þórir er ekki með stúdentspróf en telur sig hafa bæði reynsluna og þekkinguna sem þurfi til námsins.

„Ég held að mér hafi verið neitað um inngöngu af því ég er fötluð manneskja og það er ekki sanngjarnt,“ segir Þórir og bætir við að hann hafi alltof oft orðið fyrir fordómum vegna fötlunar sinnar.

„Það liggur fyrir að ég átti ekki að fá að komast inn í Listaháskóla Íslands en ég mun ekki gefast upp og mun sækja aftur um árið 2023,“ segir Þórir.

Vinur Þóris, Kolbeinn Jón Magnússon, sem einnig er fatlaður, sótti líka um nám við Listaháskólann fyrir komandi haust og komst ekki inn. Þórir segir þá báða ætla að sækja um að ári og hvetja fleiri fatlaða til að gera það líka.

„Ég mun hvetja fleiri og fleiri til að sækja um og við gefumst ekki upp, það þarf að breyta þessu. Sama hvort það verði gerð sérstök námsbraut fyrir okkur eða eitthvað annað þá þarf að gera eitthvað til að við fáum tækifæri,“ segir Þórir.

„Ég held að vandamálið sé það að skólinn treysti sér ekki til að taka á móti fötluðu fólki. Ég bjóst alveg við því að komast ekki inn en það er samt ósanngjarnt og þótt ég sé ekki með stúdentspróf er ég þekktur listamaður og það þurfa ekki allir að læra eins,“ segir Þórir.

Ekki fékkst svar við skriflegri fyrirspurn Fréttablaðsins til Listaháskóla Íslands við vinnslu fréttarinnar.