Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins sagði ummæli sín um Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, sem hann lét falla á Klausturbar, „alíslensk“ og að þau hafi til þessa ekki talist ósiðleg. Hann segir ráðherrann þá hafa misnotað orðið ofbeldi um háttsemi Klaustursmanna í pólitískum tilgangi.

„Hjólum í helvítis tíkina“

Þetta kemur fram í bréfi Gunnars Braga sem hann skilaði til forsætisnefndar og mbl.is birti í dag. Fundur forsætisnefndar vegna Klaustursmálsins lauk rétt eftir klukkan 11 í dag og er því komin niðurstaða í málið. Hún verður hins vegar ekki gerð opinber fyrr en seinni partinn. Í áliti siðanefndar sem hún skilaði inn til forsætisnefndarinnar var komist að því að tveir þingmenn Miðflokksins, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi, hefðu gerst brotlegir við siðareglur.

Í umræddu samtali þingmannanna á Klausturbar lét Gunnar Bragi þessi orð falla um Lilju: „Henni er bara fokking sama um hvað við erum að gera. Hjólum í helvítis tíkina. Það er bara málið. Af hverju erum við að hlífa henni? Ég er að verða brjálaður! Af hverju erum við að hlífa henni?“

Lilja kallaði þingmennina ofbeldismenn í Kastljósinu.

Þingmönnunum var birt niðurstaða siðanefndar svo að þeir gætu komið sínum sjónarmiðum á framfæri til forsætisnefndar. Í bréfi Gunnars Braga til forsætisnefndar segir hann orð sín um Lilju eiga sér rætur í vonbrigðum og reiði vegna persónulegs máls. „Það er hins vegar al íslenskt að nota þau orð sem þarna voru höfð uppi og hafa ekki til þessa talist ósiðleg en klárlega skammarorð,“ segir hann þá í bréfinu.

Í lok athugasemdar Gunnars Braga í bréfinu vegna ummæla sinna um Lilju segir hann þá: „En þrátt fyrir að menntamálaráðherra hafi misnotað orðið ofbeldi í pólitískum tilgangi þá er menntamálaráðherra fyrst og fremst stjórnmálamaður sem nýtir sín tækifæri en er ágætis manneskja.“ Hann vísar þá væntanlega til þess þegar Lilja mætti í Kastljós í byrjun desember 2018 þar sem hún sagði sig upplifa samtalið sem ofbeldi gagnvart sér. „Þeir eru ofbeldismenn,“ sagði hún hreint út.

Bara vinalegur „banter“

Bergþór gerir þá einnig lítið úr ummælum sínum um ráðherrann í bréfi sínu til forsætisnefndar. Í samtalinu á Klausturbar sagði hann meðal annars um Lilju að engin „gugga hefði teymt hann meira á asnaeyrunum“ en hún, sem hann hafi „ekki fengið að ríða“.

„Það hefur engin gugga teymt mig meira á asnaeyrunum en hún, sem ég hef ekki fengið að ríða.“

Í bréfi Bergþórs segir þannig: „Fyrri ummælin eru augljóslega sögð í stríðnistóni, þar sem gert er grín að góðum vinum sem hafa látið stjórnmálamann teyma sig á asnaeyrunum að mati undirritaðs.“ Hann segir þá að í Bretlandi væri grín á borð við þetta kallað „to have a banter“ sem netorðabókin skilgreini sem „playful and friendly exchange of teasing remarks“ eða „gáskafull og vinaleg orðaskipti í þeim tilgangi að stríða“.

Hvorki náðist í Lilju né Gunnar Braga við gerð fréttarinnar.