„Þarna finnst mér ráð­herra vera að stilla því þannig upp að við­brögðin hafi eitt­hvað með per­sónuna að gera sem var skipuð,“ segir Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, innt við­bragða við því að Lilja Al­freðs­dóttir menningar­mála­ráð­herra sagði á Safna­þingi að hún hefði ekki skipað Hörpu Þórs­dóttur í em­bætti þjóð­minja­varðar án aug­lýsingar ef hún hefði séð við­brögð sam­fé­lagsins fyrir.

Helga Vala segir að ráð­herra verði að fara eftir þeirri megin­reglu laga að skipa í em­bætti að undan­genginni aug­lýsingu en ekki eftir geð­þótta­á­kvörðun hverju sinni.

„Maður hefði haldið að um­ræddur ráð­herra hefði lært sitt­hvað af fyrri ráðningar­málum sínum og því er þetta al­var­legra en ella,“ segir Helga Vala.