Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, segir að oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, Líf Magneudóttir, hafi rangt fyrir sér þegar hún segir að borgarbúar hafi hafnað hugmyndum flokksins um kvenfrelsi, umhverfisvernd og félagslegt réttlæti þegar þau kusu ekki flokkinn. VG hlaut aðeins fjögur prósenta atkvæða í borginni í sveitarstjórnarkosningum um helgina.

Í kjölfarið tilkynnti Líf að hún ætlaði ekki að taka þátt í meirihlutasamstarfi, heldur að nýta kjörtímabilið til að vinna að þeirra málum.

Ingibjörg segir þessa nálgun ranga hjá Líf og að kjósendur flokksins hafi einfaldlega farið annað með atkvæðin sín. „Þeir fóru bara annað með þessi atkvæði. Líklega til Samfylkingar fyrir kvenfrelsi, Pírata fyrir umhverfisvernd og Sósíalista fyrir félagslegt réttlæti.“

Í færslunni fer Ingibjörg einnig yfir það sem hefur gerst undanfarið í landspólitík og hvernig það hefur haft áhrif á flokkinn en bendir einnig á það, sem vakti athygli um helgina, að fyrrverandi oddviti Vinstri grænna og femínistinn Sóley Tómasdóttir hvatti fólk til að kjósa Samfylkinguna í stað Vinstri grænna vegna þess að jafnréttisstefna þeirra væri sú trúverðugasta.

„Eftir að Vinstri grænir ákváðu að mynda ríkisstjórn þar sem þeir gáfu eftir umhverfisráðuneytið, verandi sá flokkur á Alþingi sem gefur sig helst út fyrir umhverfisvernd og sá sem sótti sérstaklega utanþingsráðherra með brennandi ástríðu fyrir umhverfismálum á síðasta kjörtímabili, og samþykktu síðan Jón Gunnarsson með Brynjar Níelsson sér við hlið í dómsmálaráðuneytinu eru Vinstri grænir ekki lengur trúverðugur kvenfrelsis- eða umhverfisverndarflokkur. Eftir að þeir seldu Íslandsbanka að næturlagi til útvalinna, þar á meðal föður fjármálaráðherra og einstaklinga sem lögðu drög að bankahruni misstu þeir trúverðugleika út frá félagslegu réttlæti.

Ef Vinstri grænir tapa trúverðugleika sínum í þessum málaflokkum, hvað er þá eftir?“

Færsluna er hægt að sjá hér að neðan.