Íris Guðnadóttir, einn landeigenda að Reynisfjöru á Suðurlandi, þvertekur í færslu á Facebook-síðu sinni fyrir ásakanir um að landeigendur hafi staðið í vegi þess að fyrir því að öryggisráðstafanir við fjöruna yrðu bættar.

„Ég verð að viðurkenna að það að lesa fréttir dagsins er eins og blaut tuska í andlitið á okkur landeigendum,“ skrifar hún. „Að fulltrúi Landsbjargar saki okkur opinberlega um að standa í vegi fyrir öryggisúrbótum í Reynisfjöru!“

Umræða um öryggisaðbúnað á ströndinni hefur komist í kastljósið eftir að ung kínversk ferðakona fannst látin í fjörunni í gær. Jónas Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, sakaði hluta landeigenda á svæðinu um að hafa staðið í vegi úrbóta í öryggisátt á ströndinni. Til dæmis hefðu þeir að hans sögn komið í veg fyrir að viðvörunarfáni og blikkljós yrðu sett upp á ströndinni þrátt fyrir að starfið hefði þegar verið fjármagnað.

Íris er sár yfir ásökunum Jónasar. „Það erum við sem þurfum að horfa upp á þetta. Mamma mín stóð uppi á brekkunni í gær og horfði á stelpuna berast út og drukkna. Árið 2016 var það mamma mín sem hlúði að ekkjunni og færði hana í þurr föt. Árið 2007 var það nítján ára bróðir minn sem fór út á slöngubát til að sækja líkið af konunni sem drukknaði þá. Það að saka okkur landeigendur um að standa á móti öryggisúrbótum finnst mér grafalvarlegt. Þetta er blaut tuska, virkilega blaut tuska.“

Íris segir ásakanirnar jafnframt ekki eiga við rök að styðjast. Landeigendur hafi aðeins beðið um nánari útfærslu á tillögum á borð við fánahugmyndinni, meðal annars um það hver ætti að draga fánann upp. „Við vorum með ábendingar og rýni til gagns en við höfnuðum aldrei neinu. Ég veit ekki hvað fjármuni hann er að tala um eða hvaða hlið hann á við. Ég veit ekki til þess að það hafi verið borið undir okkur.“

„Forsagan er sú að það var dauðsfall árið 2007, en þá var ferðamannabylgjan ekki byrjuð,“ segir Íris í samtali við Fréttablaðið. „Svo tekur mann út árið 2016. Í kjölfarið á því slysi fór í gang vinna við að setja upp merkingar, skilti og gönguleið til að leiða fólkið eftir göngustíg svo það þurfi að ganga eftir þessum skiltum. Það var lögreglan á Suðurlandi sem var í forsvari fyrir þeirri vinnu. Ég kom að því á sínum tíma sem verkfræðingur á bruna- og öryggissviði á verkfræðistofu sem kom að þeirri vinnu. Síðan þá hafa rekstraraðilar Svörtu fjörunnar sem er stór hluti landeigenda á svæðinu sett upp merkingar að eigin frumkvæði sem aðvaranir.“

Íris Guðnadóttir, einn landeigenda að Reynisfjöru.
Mynd/Aðsend

„Það erum við sem þurfum að horfa upp á þetta. Mamma mín stóð uppi á brekkunni í gær og horfði á stelpuna berast út og drukkna.“

Íris rifjar upp að eftir skriðufall á svæðinu árið 2019 hafi lögreglustjórinn á Suðurlandi kallað til fundar þar sem saman komu nokkrir landeigendur, Vegagerðin og sveitarstjórinn í Vík. „Vegagerðin hafði fengið styrk til að gera ölduspákerfi á heimasíðunni sinni og hugmynd hafði verið að setja upp ljósaskilti sem væri tengd við þetta kerfi. Síðan fór í gang vinna við að hanna og útfæra þetta en sú vinna stöðvast í lok árs 2019. Ég sendi tölvupóst og fékk svör árið 2020 um að búið væri að setja upp nefnd innan ferðamálaráðuneytisins og sú nefnd sé að vinna að því að samræma svona merkingar um allt land. Þau vildu ekki halda áfram þessari vinnu í Reynisfjöru fyrr en það væri búið að ákveða og samræma þetta. Ég veit ekki meira.“

Íris furðar sig jafnframt á hugmynd Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um að loka mögulega ströndinni í fimm daga á ári. „Ég skil ekki alveg sem heimamaður hvaðan það kemur, því ég get alveg fullyrt að fjörunni hefði ekki verið lokað daginn sem maðurinn lést árið 2016 því þá var ljómandi gott veður og ekki það slæmt í sjóinn. Ég væri til í að sjá þessi gögn og hvað liggur þarna að baki.“