Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar vill að aganefnd KSÍ taki aftur upp mál þar sem Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður Stjörnunnar, var dæmdur í eins leiks bann vegna óviðurkvæmilegra ummæla um andleg veikindi annars leikmanns, Ingólfs Sigurðssonar í Leikni. Skrifstofan segir að samkvæmt lögum KSÍ eigi Þórarinn að lágmarki að fá fimm leikja bann og Stjarnan eigi að fá sekt.

Í yfirlýsingu er bent á að aganefndin sé ekki að fara eftir þeim reglum sem hún eigi að vinna eftir og sendi um leið þau skilaboð að fordómar séu leyfilegir á vellinum. Vitnað er í 16. grein reglugerðar KSÍ.

„Hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi með fyrirlitningu, mismunun eða niðurlægingu í orði eða verki varðandi kynhneigð, kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt, og stöðu að öðru leyti skal sæta leikbanni í að minnsta kosti 5 leiki og banni frá viðkomandi leikvelli. Jafnframt skal félag viðkomandi sæta sekt að lágmarki að upphæð kr. 100.000. Ef sá brotlegi er forsvarsmaður liðs skal sekt félags nema að lágmarki kr. 150.000.“

Borgin segir að greinin sé skýr og veiti ekki bara heimild til að setja þann sem brýtur af sér í bann heldur „skuli“ leikmaðurinn sæta minnst fimm leikja banni.

Ingólfur Sigurðsson hefur stigið fram opinberlega og rætt veikindi sín og þá fordóma sem hann hefur fundið fyrir. Ingólfur hefur glímt við kvíðaröskun.

Sjá einnig: Telur andleg veikindi aftra sér í leit að liði

Mannréttindaskrifstofan vitnar til ummæla Guðna Bergssonar, formanns KSÍ, sem hafi látið hafa eftir sér að dómari hafi ekki fyllt skýrslu nægilega vel út. Því hafi aganefndin ekki getað úrskurðað samkvæmt 16. greininni. „Sé það raunin er ástæða til að biðja dómarann um að fylla samviskusamlega út skýrsluna og að aganefndin taki málið upp aftur. Verði það ekki gert þá er aganefndin og þar með KSÍ að leggja blessun sína yfir fordóma,“ segir skrifstofan.

Fram kemur að mannréttindaskrifstofu borgarinnar beri að standa vörðu um að borgarbúum sé ekki mismunað, meðal annars vegna heilsufars. „Skrifstofan tekur undir tilkynningu frá Leikni um málið þar sem segir m.a. að KSÍ sé með þessum úrskurði ekki að vinna gegn fordómum heldur styðji við óásættanlega hegðun.“

Þórarinn greindi frá því á Twitter eftir leikinn að hann hefði beðið Ingólf afsökunar á ummælunum strax eftir leik. „Í leik Stjörnunnar og Leiknis missti ég stjórn á skapi mínu og lét orð falla sem eiga ekki heima inni á fótboltavelli. Orð sem eru mér ekki sæmandi. Ég fékk verðskuldað rautt spjald. Strax eftir leik talaði ég við viðkomandi aðila og baðst afsökunar á því. Fyrir mér lauk málinu þar og skildum við sáttir.“

Þess má geta að Geðhjálp hefur tekið í svipaðan streng og Mannréttindaskrifstofa borgarinnar.