Guð­ný Bjarna­dóttir, læknir, segir í að­sendri grein í Morgunblaðinu frá kyn­ferðis­of­beldi sem hún var beitt af Kristni E. Andrés­syni þegar hún var níu ára gömul og vill skila skömminni núna 60 árum síðar.

Til­efni greinarinnar er bók sem kom ný­verið út „Kristinn og Þóra: Rauðir þræðir“. Á heima­síðu For­lagsins segir að Kristinn hafi verið fram­kvæmda­stjóri Máls og menningar og Heims­kringlu og mikill á­hrifa­maður í pólitík og menningar­lífi og að Þóra, eigin­kona hans, hafi verið á­hrifa­kona í kvenna­bar­áttu og að þau hafi unnið ötul­lega saman að upp­byggingu kommún­isma á Ís­landi.

Guð­ný segir í greininni í Morgun­blaðinu að bókin veki hjá henni slæmar minningar í hvert sinn sem hún sé hana aug­lýsta.

„Það eru vissar stað­reyndir um Kristin E. Andrés­son sem er ekki getið í bókinni og ég finn mig knúna til að segja frá, stað­reyndir sem hafa elt mig allt lífið þó að ég hafi sem betur fer ekki látið það eyði­leggja fyrir mér meira en nauð­syn­legt er þegar barn ber leyndar­mál sem ekki einu sinni mamma og pabbi mega vita um,“ segir Guð­ný, en fram kemur í greininni að eini maðurinn sem hún hafi sagt frá of­beldinu er maðurinn hennar.

Áður en ég vissi af færði hann sig að mér, tók bókina af mér og lét mig standa upp þétt að sér. Hann þuklaði mig alla og rak tunguna upp í munninn á mér. Þetta ætlaði engan enda að taka.

Í greininni kemur fram að þegar Guð­ný var níu ára var henni boðið á heimili þeirra hjóna til að lesa Sálminn um blómið en bókin var ekki til á heimili hennar.

„Þegar ég var búin að koma mér fyrir í stóra sófanum í fínu stofunni hjá Kristni og Þóru lét Þóra sig hverfa fram en Kristinn varð eftir í stofunni. Áður en ég vissi af færði hann sig að mér, tók bókina af mér og lét mig standa upp þétt að sér. Hann þuklaði mig alla og rak tunguna upp í munninn á mér. Þetta ætlaði engan enda að taka. Hann hélt á­fram drykk­langa stund, stundi þungan, talaði um hve fal­leg augu ég væri með og nuddaði bringuna og klofið á mér,“ segir Guð­ný.

Hún segir að þegar hann loks sleppti henni sá hún að Þóra var frammi að skipta á rúmum og hún hafi til­kynnt henni að hún vildi fara heim en þá hafi ekkert annað komið til greina en að Kristinn æki henni heim.

„Á leiðinni stöðvaði Kristinn bílinn á Soga­veginum, andaði þungt, ótt og títt og spurði hvort ég vildi koma með sér upp í Heið­mörk. Þótt ég væri hrædd gat ég stunið því upp að ég vildi fara heim og þannig slapp ég í það skiptið,“ segir Guð­ný.

Hún segir að hún hafi ekki sagt frá þessu þegar hún kom heim því hún skammaðist sín og var sem lömuð, en það eru þekkt við­brögð þol­enda.

Guð­ný segir að hún hafi aldrei sjálf farið aftur heim til þeirra hjóna en að gekk svo í flasið á honum á sínu eigin heimili nokkrum mánuðum síðar þar sem hann við­hafði sömu hegðun og áður.

„Þegar hann var búinn að fá nóg fór hann og skildi eftir bók sem hann ætlaði að gefa okkur. Það var opin­bert til­efni heim­sóknarinnar,“ segir Guð­ný.

Ég þagði yfir þessu og skammaðist mín í ára­tugi. Skammaðist mín fyrir minningu sem ég bað ekki um og gat ekkert að gert

Fluttu til Noregs

Hún segir að árið 1965 hafi fjöl­skyldan svo flust til Noregs og hún hafi ekki séð Kristinn aftur eftir það.

„Ég þagði yfir þessu og skammaðist mín í ára­tugi. Skammaðist mín fyrir minningu sem ég bað ekki um og gat ekkert að gert. Ég sagði maka mínum frá þessu en aldrei for­eldrum mínum. Ég á­kvað að þau fengju að deyja án þess að heyra þetta,“ segir Guð­ný.

Hún segir að höfundur bókarinnar um Kristinn og Þóru, Rósa Magnús­dóttir, hafi hlustað á hennar frá­sögn og að hún sé henni þakk­lát fyrir það

„Sjálf vona ég að mér takist nú að skila skömminni frá mér, nú loksins þegar ég kem mér að því að skrifa um þessa lífs­reynslu, sem ég hefði svo sannar­lega viljað vera án þegar ég var níu ára gömul, nú sex­tíu árum síðar,“ segir hún að lokum í greininni.

Hægt er að lesa greinina í heild sinni í Morgun­blaðinu í dag.