Einn landeigenda Drangavíkur, Guðrún Anna Gunnarsdóttir, hefur sent Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál bréf þar sem hún gerir formlega athugasemd við kæru meirihluta landeigenda til sömu nefndar. Þar var kært bæði deiliskipulag og framkvæmdaleyfi VesturVerks fyrir fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar. Greint var fyrst frá á bb.is
Guðrún Anna dregur, í bréfi sínu, í efa kort sem þau styðjast við sem teiknað var af landfræðingnum Sigurgeiri Skúlasyni og er byggt á landamerkjum frá 1890. Hún segir að jarðamörk Dranga, Drangavíkur og Engjaness hafi verið óumdeild um aldir og að kort Sigurgeirs sé ekki byggt á ríkjandi hefðum til fjalla sem séu vatnaskil.
Hún segir kortið vísvitandi sett fram á fölskum forsendum og einungis sett fram til að valda öðrum skaða. Þá gerir hún einnig athugasemdir við það að Sif Konráðsdóttir hafi beðið Sigurgeir að teikna kortið, en Sif var þar til í nóvember á síðasta ári aðstoðarkona Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindarráðherra.

Fer eftir mörgum heimildum
Sigurgeir Skúlason, landfræðingur, staðfesti í samtali við Fréttablaðið í kvöld að það hafi verið Sif sem óskaði þess að hann teiknaði kortið. Hann segir að þegar hann teikni slík kort þá fari hann ávallt eftir mörgum heimildum og skoði marga hugsanlega möguleika til að komast að réttri niðurstöður.
„Ég teiknaði kortið samkvæmt landabréfamerkjunum gömlu. Það er sú heimild sem ég nota. Ég er fenginn inn sem sérfræðingur og teikna þetta upp eftir bréfum sem eru gerð í kringum 1885 sirca. Þa voru gerð landamerkjabréf af öllum jörðum á landinu, það var skylda samkvæmt lögum. Það sem ég hef þar til að vinna eftir eru landamerki Dranga, landamerki Drangavíkur, landamerki Engjaness og landamerki Ófeigsfjarðar,“ segir Sigurgeir.
Hann segir að lélegasta landamerkið hafi verið í kringum svæði Drangavíkur og því hafi hann í raun þurft að draga mörk jarðanna í kring.
„Ég þurfti að draga mörk hinna jarðanna eins og þau eru í bréfunum. Það er raunverulega þannig sem ég dreg Ófeigsfjarðarlínuna, Engjaneslínuna og Drangavíkur eins og hún nær og svo Dranga. Ég get ekki búið til línur sem að ég hef ekki heimildir fyrir,“ segir Sigurgeir.

„Enginn sem stjórnar því hvað ég teikna“
Hann segir að ekkert nema þær heimildir sem hann finni stjórni því hvað hann teiknar.
„Þegar maður er að gera svona kort þá skoðar maður alla möguleika sem koma upp í bréfunum. Það er það sem fyrst og fremst málið. Ég skoða fleiri en einn möguleika, hvort það geti eitthvað annað verið, en svo endanleg niðurstaða er sú sem birtist þarna af því sem að ég teikna. En það er eingöngu samkvæmt þeim heimildum sem að ég fæ úr þessum bréfum og það er enginn sem stjórnar því hvað ég teikna annað en þessar heimildir,“ segir Sigurgeir.
Sigurgeir segist ekki kannast við Guðrúnu Önnu Gunnarsdóttir, en segir að annar aðili hafi haft samband við hann frá Stykkishólmi.