„Eftir að lokatölur eru tilkynntar að morgni 26. september hófst atburðarás sem á sér enga stoð í lögum,“ segir í kæru Karls Gauta Hjaltasonar til Alþingis vegna endurtalningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi.
Karl Gauti segir í kæru sinni að formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi hafi ákveðið „upp á eigin spýtur, án kröfu frá nokkrum bærum aðila og án nokkurrar lagaheimildar“ að telja atkvæðin aftur. Hann gagnrýnir atburðarásina harðlega.
„Getur sú lögleysa sem staðfest er að átti sér stað ekki ákvarðað niðurstöðu alþingiskosninga. Aðbúnaður kjörgagna var ekki í neinu samræmi við það sem lög bjóða,“ segir í kærunni. Lög hafi verið brotin í fjölmörgum mikilvægum þáttum og útilokað að það sem fram hafi farið geti verið lagt til grundvallar niðurstöðu í lýðræðislegum kosningum.
Geðþóttaákvarðanir við slíkar aðstæður eiga sér enga lagastoð.
„Geðþóttaákvarðanir við slíkar aðstæður eiga sér enga lagastoð,“ segir í kæru Karls sem krefst þess að Alþingi ákveði að lokatölur eins og þær voru tilkynntar með formlegum hætti að morgni 26. september 2021 séu hinar einu réttu og marktæku.
„Eftir að talningu lauk um morguninn og lokatölur voru lesnar upp var fundi yfirkjörstjórnar frestað til kl. 13.00. Samt sem áður er nú ljóst að formaður yfirkjörstjórnar mætti rúmum klukkutíma áður (klukkan 11.46) og var þá einn innan um óinnsigluð kjörgögnin í nánast hálfa klukkustund, sem er í beinni andstöðu við skýr ákvæði kosningalaga,“ segir meðal annars í kæru Karls Gauta þar sem ítarlega er farið yfir fjölmarga aðra agnúa sem þingmaðurinn fyrrverandi telur hafa verið á endurtalningunni.