Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hét því á fundi með forseta Tævans, Tsai Ing-wen í nótt að Bandaríkin myndu standa dyggilega við bakið á Tævönum. Kínversk stjórnvöld eru þeim bandarísku æfareið fyrir heimsóknina.
Kínversk stjórnvöld hafa um árabil litið svo á að Tævan sé óaðskiljanlegur hluti af Kína, eða allt frá því að þjóðernissinnar flúðu Kína árið 1949 til Tævan eftir ósigur í borgarastyrjöld gegn kínverska kommúnistaflokknum.

Eyjaskeggjar hafa hinsvegar ráðið sér sjálfir allar götur síðan, undir verndarvæng Bandaríkjanna. „Það er mikilvægt að skilaboðin séu skýr,“ sagði Pelosi að fundi loknum með Tsai Ing-wen. Bandaríkin muni tryggja öryggi Tævan komi til innrásar Kína.
„Þetta snýst um sameiginleg lýðræðisleg gildi okkar og frelsi og hvernig Tævan hefur verið fyrirmynd fyrir heiminn,“ sagði Pelosi. Kínverjar brugðust ókvæða við, meðal annars með hernaðarbrölti í kringum eyjuna og eldflaugavarnaræfingum.
Þá kölluðu stjórnvöld í Peking bandaríska sendiherrann í Kína á teppið vegna málsins. Aðstoðarutanríkismálaráðherra Kína, Xie Feing mótmælti heimsókninni harðlega. Kínversk stjórnvöld gripu einnig til efnahagslegra aðgerða gegn Tævan, meðal annars með því að fresta innflutningi á þó nokkrum vörutegundum frá Tævan, líkt og makríl og sítrus ávöxtum.