Félag atvinnurekenda segir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa keypt hraðpróf til að skima fyrir kórónuveirunni fyrir hundruð milljóna króna án þess að bjóða kaupin út í samræmi við lög um opinber innkaup.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir Heilsugæsluna ekki hafa svarað fyrirspurnum félagsins.

„Við erum hissa,“ segir Ólafur um vinnubrögð Heilsugæslunnar. „Við komum þessu ekki heim og saman og værum ekki að vekja athygli á þessu ef Heilsugæslan hefði svarað okkur,“ bætir Ólafur við í samtali við Fréttablaðið.

„En svo gerist ekki neitt“

Síðastliðinn september þegar ríkisstjórnin tilkynnti um að fjölmennir viðburðir væru leyfilegir með hraðprófum, sendu Ríkiskaup og Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu út boð til fyrirtækja um að taka þátt í svokölluðu rafrænu gagnvirku innkaupakerfi vegna hraðprófa, sem er nútímaleg aðferð við útboð.

Hinn 8. nóvember fengu níu fyrirtæki staðfestingu þess að þau hefðu verið valin til þátttöku í innkaupakerfinu. Þessi fyrirtæki voru öll með erlenda birgja sem seldu hraðpróf sem standast gæðakröfur.

„En svo gerist ekki neitt,“ útskýrir Ólafur. Engin innkaup voru skráð í kerfinu þrátt fyrir að mörgu þúsund manns hefðu þegar mætt í hraðpróf. Í janúar birtust svo fréttir um að Heilsugæslan hefði notað hraðpróf frá tveimur framleiðendum sem Landspítalinn hefði mælt sérstaklega með.

Ríkiskaup og Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu sendu út boð til fyrirtækja í september um að taka þátt í rafrænu gagnvirku innkaupakerfi vegna hraðprófa. Innkaupin gætu numið allt að fimm milljörðum króna á fimm ára gildistíma innkaupakerfisins.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

„Það er engin neyð“

Ríkiskaup staðfesta við Fréttablaðið að ekki er hægt að sjá að hraðprófin hafi verið keypt inn í hinu gagnvirka innkaupakerfi. Til eru neyðarsjónarmið sem gætu veitt stofnun undanþágu frá hinu lögbundna ferli eins og til dæmis vegna heimsfaraldurs Covid-19.

Ólafur gefur lítið fyrir þær skýringar.

„Það er engin neyð og engin ringulreið í innkaupum á læknavörum og lyfjum eins og í byrjun faraldursins. Þvert á móti er þetta ágætlega skipulagður markaður með hinar ýmsu vörur sem hafa verið þróaðar til að skima fyrir veirunni og annað slíkt.“

Ólafur bendir á að lög um opinber innkaup hafi margvíslegan tilgang; að það sé farið vel með fé skattgreiðenda, ýti undir samkeppni sem allur almenningur njóti góðs af, tryggir gegnsæi og komi í veg fyrir spillingu og frændhygli við opinber innkaup.

Þetta sé grafalvarlegt mál að mati FA. „Opinberum aðilum leyfist ekki að kaupa inn vörur fyrir aðrar eins fjárhæðir án þess að fara í formlegt útboðsferli. Af svörum Ríkiskaupa verður ekki annað ráðið en að Heilsugæslan hafi látið hjá líða að fylgja hinu lögformlega ferli.“

Félaginu þykir stórundarlegt að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins lýsi því yfir opinberlega að hún noti hraðpróf sem einhverjum á Landspítalanum þykja henta, en gefi ekki fyrirtækjum færi á að bjóða í innkaupin, sem bjóða hraðpróf sem hafa sætt ströngu gæðaeftirliti og eru samþykkt af opinberum og óháðum aðilum. Það er ekki ábyrg meðferð á fjármunum skattgreiðenda. Þá þykir okkur ekki síður furðulegt að stofnunin svari ekki fyrirspurnum um málið ef hún hefur skýringar á reiðum höndum,“ segir Ólafur.