Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og þingmaður Vinstri grænna, segir það tilviljun hve karllæg dagskráin er á hátíð Jóns Sigurðssonar í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, bjóst við meiru í jafnréttismálum frá þingmanni VG.

Í dag var auglýst dagskrá fyrir hátíð Jóns Sigurðssonar sem fram fer á sumardaginn fyrsta, 25. apríl, í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Árvakrir netverjar hafa veitt því athygli að dagskráin sé heldur karllæg.

Dagskráin á hátið Jóns Sigurðssonar.

Uppröðunin tilviljun

Forseti Alþingis segir að uppröðun sé tilviljun. „Það er tilviljun að það hafi raðast á þennan hátt. Við erum í þeim hlutverkum sem við erum, forseti Alþingis er karl og skrifstofustjórinn sömuleiðis. Hann hefur sinnt þessu og er að láta af störfum svo hann flytur þessa hátíðarræðu,“ segir Steingrímur, en hann setur hátíðina og Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri þingsins, flytur hátíðarræðu.

Þrjú tónlistaratriði verða flutt á hátíðinni, öll af karlakórnum Hafnarbræður. Steingrímur segir að kórinn sé nýstofnaður og því sé honum leyft að spreyta sig, en hingað til hafa kvennakórar aðallega flutt tónlistaratriðin. „Eins og ég segi er þetta hrein tilviljun, en ég hef ekki áhyggjur af því að við förum út af sporunum í jafnréttismálunum út af því,“ segir Steingrímur, en bendir jafnframt á að skipulagning hátíðarinnar er í höndum stjórnar Jónshúss. Þá stjórnar formaður stjórnar húss Jóns Sigurðssonar, Þorsteinn Magnússon, fundardagskránni.

Hins vegar segir Steingrímur að hann viti til þess að tillagan um verðlaunaþega verðlauna Jóns Sigurðarssonar sé kona, þótt hann geti ekki upplýst nánar um hver hljóti verðlaunin.

„Leiðinlegt trend“

Þórhildur Sunna, þingmaður Pírata, segir að það sé leiðinlegt að sjá hve karllæg dagskráin er. „Þetta er frekar leiðinlegt trend hjá forseta og skrifstofu forseta, sem ítrekað verða uppvís af því að hafa konur ekki með í sinni dagskrá,“ segir Þórhildur í samtali við Fréttablaðið. Segir hún að það eigi við fjöldamörg tónlistaratriði á þingsettingarhátíðum og hátíðarfundum þingsins.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.

Hún segist hafa átt von á öðrum vinnubrögðum frá þingmanni VG. „Ég hefði átt von af því af forseta Alþingis og þingmanns VG, sem hefur femínisma sem eina af sínum grunnstoðum, að standa sig betur í jafnréttismiðaðri dagskrárgerð en raun ber vitni,“ heldur Þórhildur áfram. „Þetta er á hans ábyrgð.“