Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, félagsráðgjafi og formaður Samtaka um líkamsvirðingu, segir í pistli á Facebook í dag að ekki sé hægt að leggja að jöfnu óviðeigandi ummæli kvenna um lögmanninn Jón Steinar Gunnlaugsson og ársgömul ummæli hans um þolendur kynferðisbrota.

Tara segir að Jón Steinar hafi trekk í trekk opinberað sig sem varðhund feðraveldisins. Hún rifjar upp hvaða ummæli hans það voru sem kölluðu á þau ummæli sem viðhöfð voru um hann í Facebook-hópnum Karlar gera merkilega hluti. Hún hlekkjar í frétt Stundarinnar

Sjá einnig: Leggja til að Jón Steinar fyrirgefi konum í stað þess að skrifa um þær

„Þarna segir Jón Steinar að þolendum Róberts Downeys myndi líða miklu betur ef þeim tækist að fyrirgefa honum enda séu önnur brot miklu alvarlegri en þau sem hann beitti þeim. Honum finnst að sjálfsögðu ekki skipta máli að hér er á ferð maður sem hefur aldrei neina iðrun sýnt sem mætti kalla fyrsta skrefið í átt að fyrirgefningu. Hann bætti svo um betur og minnti á að þetta hafi nú ekki verið „lítil börn, sko” sem Róbert braut á, nei þetta voru unglingsstúlkur. Þetta er ekki í fyrsta skiptið eða annað sem Jón Steinar fer langt út fyrir lögfræðilegar skyldur sínar til að verja meinta eða dæmda gerendur kynferðisafbrota og barnaníðs.“

Tara segir að krafan um að þolendur fyrirgefi geranda sínum sé aldrei jafn sterk og þegar komi að kynferðisbrotamálum. „Við vitum að viðbrögð þolenda eru misjöfn eins og þeir eru margir (og þolendur eru allt of margir) og við vitum líka að fyrirgefningarsvipan er tól sem hefur verið notað í gegnum tíðina til að níðast á þeim. Ekki í neinum málaflokki er krafan um fyrirgefningu jafn sterk og þegar kemur að kynferðisbrotum. Þessi krafa er notuð til að yfirfæra ábyrgð brotsins frá geranda yfir á þolanda, til að magna upp skömmina og þögnina sem kynferðisbrot þrífast í,“ segir Tara í pistlinum.

Hún gerir #Metoo-byltinguna að umtalsefni og spyr hvort sú umræða hafi virkilega ekki skilað samfélaginu betri árangri en þetta. Fólk sé forviða á því að einhver skuli kalla einhvern „viðbjóð“ „en kýs að líta algjörlega fram hjá því sem viðgengst á kommentakerfum fjölmiðla gagnvart þolendum kynferðisofbeldis og jaðarsettum einstaklingum dags daglega. Annað sem verið er að gera hérna er að þeir valdamiklu í þjóðfélaginu eru að reyna að snúa þolendavænni umræðu sér í hag og í sína þágu og gera sjálfa sig að þolendum.“

Sjá einnig: Kallaður kvikindi og illfygli í netheimum

Hún segir að þeir sem skammi konur sem tjái réttmæta reiði sína á lokuðu vefsvæði sé angi af nauðgunarmenningu. Í hópnum eru tæplega 10 þúsund manns.

Tara segist ekki vera að réttlæta umræðuhefðina sem birst hafi um lögmanninn í umræddum hópi. „Ég er bara að reyna að minna fólk á samhengið sem hefur farið forgörðum hjá allt of mörgum.“

Hún segir að ekki sé um neina hræsni að ræða. „Það að Jón Steinar skipi þolendum barnaníðs að fyrirgefa geranda sínum og að hinir sömu þolendur kalli hann viðbjóð á móti er ekki það sama og má ekki leggja að jöfnu. Í fyrra tilvikinu er nefnilega valdamikill maður að beita valdi sínu og stöðu í þjóðfélaginu til að smána þolendur og senda þá aftur í forarpytt skammar og þöggunar. Í seinna tilvikinu eru þolendurnir loksins að neita því að hverfa frá, að láta slag standa og segja “hingað og ekki lengra!”. Þeir eru að segja að þeir muni ekki snúa aftur í skömmina og þögnina, nú sé kominn tími á að gerendur axli þá ábyrgð sem þeim tilheyrir í stað þess þolendur taki hana af þeim. Ekki láta blekkjast, standið með þolendum!“