Hrafn Jökulsson, fyrrverandi ritstjóri Alþýðublaðsins og forseti Hróksins, greinir frá því á Facebook-síðu sinni að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins, hafi stundað það í tíð sinni sem kennari í Hagaskóla að skrifa ungum kvenkyns nemendum sínum „ástarbréf“ með „tillögum um hvernig fylgja mætti þeirri ,,ást" eftir.“

Sjá einnig: Mun tjá sig um málið þegar þar að kemur

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í kvöld að Aldís Schram, dóttir Jóns, hafi stigið fram og lýst kynferðislegri áreitni og annarri niðurlægjandi framkomu sem hún þurfti að þola á æskuheimili sínu. Þá hefur Stundin jafnframt greint frá frásögnum nokkurra kvenna af utanríkisráðherranum fyrrverandi, og Hildur Lilliendahl hefur gagnrýnt sinnuleysi annarra fjölmiðla um málið.

Hrafn, sem var ritstjóri Alþýðublaðsins á sama tíma og Jón var formaður Alþýðuflokksins, segir frá því að fyrrverandi nemandi Jóns hafi greint honum frá þessu. Hrafn var jafnframt varaþingmaður Alþýðuflokksins um stund. „ Því miður heyrði ég þetta ekki fyrren löngu eftir að pólitískri samleið okkar [Jóns] lauk. Þá hefði orðið fátt um kveðjur. Síðan átti margt eftir að koma í ljós,“ skrifar Hrafn.

Þá hefur bróðir Hrafns, Illugi Jökulsson dagskrárgerðarmaður, einnig lýst yfir stuðningi sýnum við Aldísi.