Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra var gestur á fundi allsherjar- og menttamálanefndar Alþingis í morgun þar sem framkvæmd ákvarðana um brottvísanir umsækjenda um vernd hér á landi var meðal annars rædd.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata sem situr í nefndinni, segir dómsmálaráðherra loksins hafa fallist á að koma. Hún segir svör varðandi það hverjir beri ábyrgð á tímasetningu brottvísananna enn óljós.

Áhugaverður fundur

„Við höfum ekki ennþá fengið almennilega skýr svör um það hver ber ábyrgð á þessari tímasetningu, að þetta sé gert núna eftir að þessi dómur fellur og stuttu áður en fólk fær niðurstöðu,“ segir Arndís Anna en hún vísar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Suleiman Al Masri. Hann hefði ekki tafið fyrir eigin brottvísun þegar hann neitaði að fara í Covid-19 próf.

Að sögn Arndísar Önnu var fundurinn í morgun að mörgu leyti áhugaverður en að þau hafi þó ekki fengið eins ítarleg svör og þau hefðu viljað vegna þess hversu seint spurningarnar voru sendar til ráðuneytisins og að það hafi verið á ábyrgð formanns nefndarinnar.

Nefndin eigi þó von á að fá svörin skriflega síðar og nefnir Arndís Anna svör við spurningum líkt og kostnaðinum við framkvæmdina og hversu margir einstaklinga eigi mögulega rétt á endurupptöku vegna dóms Suleiman Al Masri.

Ekki raunhæfir möguleikar

Arndís Anna segir Jón hafa endurtekið rangfærslur sem áður hafi komið fram á fundinum. „Því er haldið fram núna að það sé ekki rétt að fólk sé á götunni en það liggja fyrir um þetta opinberar og áreiðanlegar skýrslur opinberra aðila. Þetta er ekki eitthvað sem við eigum að vera þræta um, það er svolítið leiðinlegt hvernig þeim hefur tekist að gera það að einhverju vafamáli í þessari umræðu. Það var kannski svolítið leiðinlegt,“ segir Arndís Anna.

Hún segir Jón hafa nefnt að einstaklingar ættu almennt rétt á ýmsum úrræðum í Grikklandi en að það væri alveg vitað. „Það er alveg vitað að flóttafólk í Grikklandi á rétt á öllum þessum úrræðum og það eru ákveðin úrræði til. Vandinn er sá að það er búið að búa til ákveðnar hindranir, bæði verða þær til að sjálfu sér en líka hindranir sem eru taldar verið kerfisbundnar fyrir því að fólk geti nýtt sér þessi úrræði og þetta er eitthvað sem skýrslur eru mjög skýrar um.“

Arndís Anna segir hindranirnar gera það að verkum að fólk eigi ekki raunhæfan möguleika á úrræðunum. Hún segist vonast til að fá skýrari svör varðandi málið og ef ekki þá þurfi að halda áfram að spyrja til að fá upplýsingarnar.