Þóra Jónas­dóttir, dýra­læknir hjá Mat­væla­stofnun, segir mikil­vægt að dýra­eig­endur séu með­vitaðar um hversu mikil á­skorun jólin geti verið fyrir gælu­dýrin. Hættur leynist víða og margar þeirra inn á heimilunum.

„Við erum að tala um til dæmis jóla­mat, sæl­gæti, jóla­seríur og kerti eða jafn­vel pakka­skreytingar. Ég held að það sé lang­al­gengast sá mis­skilningur að ætla að gefa dýrunum með sér af jóla­matnum, og þá er ég að tala um mikið saltan mat, reyktan og jafn­vel sterkan. Það fer oft ekki vel í gælu­dýrin,“ segir Þóra.

Að sögn Þóru getur sæl­gæti, sem oft er uppi á borðum yfir há­tíðirnar, reynst mjög hættu­legt fyrir gælu­dýr, þá sér­stak­lega súkku­laði og rúsínur.
„Þetta er gjarnan mjög að­gengi­legt í skálum út um allt heimili. Rúsínur eru til að mynda mjög hættu­legar og skað­legar fyrir nýru í bæði hundum og köttum. Það er mjög al­gengt að fá inn á bráða­mót­töku dýr sem hafa fengið í sig það sem við köllum hættu­legan mat,“ segir Þóra.

Þá segir Þóra að bæði jóla­tréð sjálft og pakkarnir í kringum það geta verið mjög var­huga­vert fyrir gælu­dýrin.

„Það geta komið væg eitrunar­á­hrif ef dýrin éta annað­hvort greni­nálar eða til dæmis jóla­stjörnur. Svo höfum við verið að sjá ketti sem eru að éta gjafa­böndin utan af pökkunum. Það getur reynst lífs­hættu­legt ef böndin festast á leið sinni í gegnum meltinguna,“ segir Þóra.

Þóra segir að þó sé það eitt sem sé sér­stak­lega var­huga­vert og gælu­dýra­eig­endur þurfi að vera vel vakandi fyrir, en það séu raf­hlöður.

„Það er aldrei jafn mikið af raf­hlöðum í um­ferð eins og á jólunum í alls konar dóti. Og ef þær eru gleyptar geta þær verið gælu­dýrunum mjög hættu­legar. Þær geta fljótt valdið vefja­dauða vegna sýru sem getur lekið út eða raf­spennu í vef og mögu­lega þung­málma­eitrun,“ segir Þóra, og bætir við í þessu samhengi að flögurafhlöður séu sérstaklega hættulegar.
„Þær geta valdið vefja­skaða svo fljótt sem fimm­tán til þrjá­tíu mínútum eftir inn­töku. Ef dýr gleypir raf­hlöður er það neyðar­til­felli og þarf strax að hafa sam­band við vakt­hafandi dýra­lækni,“ segir Þóra.

Til þess að gera jólin sem á­nægju­legust fyrir gælu­dýrin ráð­leggur Þóra gælu­dýra­eig­endum að reyna að halda í venjurnar eins mikið og hægt er. Of miklar breytingar geti verið bæði stressandi og haft nei­kvæð á­hrif á gælu­dýrin.
„Dýr eru svo vana­föst. Þau eru eins og börnin og vilja sína rútínu. Þau þurfa til dæmis sína hvíld og sinn svefn yfir daginn sem þau eru vön að fá þegar við erum í vinnu. Þau þurfa ekkert endi­lega að fara með í hvert einasta jóla­boð, slíkt getur bara verið mikið á­reiti og stress fyrir dýrin okkar,“ segir Þóra.