Þóra Jónasdóttir, dýralæknir hjá Matvælastofnun, segir mikilvægt að dýraeigendur séu meðvitaðar um hversu mikil áskorun jólin geti verið fyrir gæludýrin. Hættur leynist víða og margar þeirra inn á heimilunum.
„Við erum að tala um til dæmis jólamat, sælgæti, jólaseríur og kerti eða jafnvel pakkaskreytingar. Ég held að það sé langalgengast sá misskilningur að ætla að gefa dýrunum með sér af jólamatnum, og þá er ég að tala um mikið saltan mat, reyktan og jafnvel sterkan. Það fer oft ekki vel í gæludýrin,“ segir Þóra.
Að sögn Þóru getur sælgæti, sem oft er uppi á borðum yfir hátíðirnar, reynst mjög hættulegt fyrir gæludýr, þá sérstaklega súkkulaði og rúsínur.
„Þetta er gjarnan mjög aðgengilegt í skálum út um allt heimili. Rúsínur eru til að mynda mjög hættulegar og skaðlegar fyrir nýru í bæði hundum og köttum. Það er mjög algengt að fá inn á bráðamóttöku dýr sem hafa fengið í sig það sem við köllum hættulegan mat,“ segir Þóra.
Þá segir Þóra að bæði jólatréð sjálft og pakkarnir í kringum það geta verið mjög varhugavert fyrir gæludýrin.
„Það geta komið væg eitrunaráhrif ef dýrin éta annaðhvort greninálar eða til dæmis jólastjörnur. Svo höfum við verið að sjá ketti sem eru að éta gjafaböndin utan af pökkunum. Það getur reynst lífshættulegt ef böndin festast á leið sinni í gegnum meltinguna,“ segir Þóra.
Þóra segir að þó sé það eitt sem sé sérstaklega varhugavert og gæludýraeigendur þurfi að vera vel vakandi fyrir, en það séu rafhlöður.
„Það er aldrei jafn mikið af rafhlöðum í umferð eins og á jólunum í alls konar dóti. Og ef þær eru gleyptar geta þær verið gæludýrunum mjög hættulegar. Þær geta fljótt valdið vefjadauða vegna sýru sem getur lekið út eða rafspennu í vef og mögulega þungmálmaeitrun,“ segir Þóra, og bætir við í þessu samhengi að flögurafhlöður séu sérstaklega hættulegar.
„Þær geta valdið vefjaskaða svo fljótt sem fimmtán til þrjátíu mínútum eftir inntöku. Ef dýr gleypir rafhlöður er það neyðartilfelli og þarf strax að hafa samband við vakthafandi dýralækni,“ segir Þóra.
Til þess að gera jólin sem ánægjulegust fyrir gæludýrin ráðleggur Þóra gæludýraeigendum að reyna að halda í venjurnar eins mikið og hægt er. Of miklar breytingar geti verið bæði stressandi og haft neikvæð áhrif á gæludýrin.
„Dýr eru svo vanaföst. Þau eru eins og börnin og vilja sína rútínu. Þau þurfa til dæmis sína hvíld og sinn svefn yfir daginn sem þau eru vön að fá þegar við erum í vinnu. Þau þurfa ekkert endilega að fara með í hvert einasta jólaboð, slíkt getur bara verið mikið áreiti og stress fyrir dýrin okkar,“ segir Þóra.