„Ég get bara sagt að mér finnst ekkert minna mikilvægt í dag en þegar ég var í þessu að staða jafnaðarmanna verði sterkari og jafnaðarstefnan ríkari þáttur í stjórn landsins, sem hún hefur ekki verið árum saman.“

Þessu svaraði Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrum félagsmálaráðherra og þingkona Alþýðuflokksins og Samfylkingarinnar, aðspurð um hvað lélegt gengi Samfylkingarinnar í kosningunum í gær segði um stöðu jafnaðarstefnunnar í íslenskum stjórnmálum.

Rannveig átti ekki von á þeirri lélegu niðurstöðu sem Samfylkingin fékk úr kosningunum. „Ég var að vinna í þessari kosningabaráttu af því að ég hef gaman af því að styðja við það fólk sem hefur tekið við keflinu. Ég fylgdist með því í návígi hvað var mikill dugnaður og kraftur og hvað það var ofboðslega gaman hvað kom margt ungt fólk til starfa og hvað þau voru bjartsýn. Við vorum tveimur dögum fyrir kosningarnar komin í 14,9 prósent í einhverri skoðanakönnun og ég efaðist ekkert um að við værum stödd þar miðað við hvað ég sá í návígi.“

Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrverandi félagsmálaráðherra.
Mynd/Aðsent

Rannveig segist hafa orðið hrygg þegar hún sá niðurstöðurnar en jafnframt hissa á því að allir stjórnarandstöðuhóparnir sem kenna sig við hina frjálslyndu miðju töpuðu nokkru fylgi. „Mér finnst mjög mikilvægt fyrir flokkana á miðjunni að þeir reyni að átta sig á því hvers vegna boðskapur þeirra náði ekki í gegn. Á sama tíma og ég gleðst yfir því að manneskja sem hefur verið sterk rödd fyrir veikasta fólkið í okkar þjóðfélagi, hún Inga Sæland, hafi náð svona góðum árangri, þá er ég mjög hugsi yfir því hvað gerðist með Viðreisn, Samfylkinguna, Pírata og jafnvel Vinstri græna. Hvað er það sem gerir það að verkum að þessir flokkar sem allir vilja meiri miðjupólitík, fóru niður, þrátt fyrir að næstum alla kosningabaráttuna hafi virst sem þeir ættu möguleika á góðu fylgi?“

„Ég horfist bara í augu við það eftir mína eigin vinnu og hringingar að á síðustu stundu varð sveifla yfir á að halda óbreyttu ástandi og að þessi áróður um að viðhalda stöðugleika, hann virkaði. Margir fóru yfir á þá flokka sem nú mynda ríkisstjórn. Ég geng alveg út frá því að þau muni ná saman og að við munum hafa óbreytta stjórn þótt ráðuneytin skipti um hendur.“