Forsætisráðherra Ísrael, Benjamin Netanyahu, segir að Ísrael sé „ekki ríki allra borgara sinna“ en forsætisráðherrann lét ummælin falla á samfélagsmiðlinum Instagram, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian og vísar þar í umdeild lög sem samþykkt voru á síðasta ári sem kveða á um að Ísrael sé þjóðríki gyðinga.

Á samfélagsmiðlinum segir forsætisráðherrann að allir borgarar landsins, þar með talið arabar, hefðu þrátt fyrir það sömu réttindin. „Ísrael er ekki ríki allra borgara sinna. Samkvæmt lögunum sem við samþykktum er Ísrael þjóðríki gyðinga og bara þeirra,“ segir forsætisráðherrann en hann var þar að svara gagnrýni ísraelska leikarans Rotem Sela.

„Eins og þú skrifaðir að þá er ekkert vandamál með arabíska borgara Ísrael. Þau hafa sömu réttindin eins og við öll og Likud ríkisstjórnin hefur gert meira fyrir þennan hóp heldur en nokkur önnur ríkisstjórn,“ segir Netanyahu. 

Fram kemur í umfjöllun Guardian að forsætisráðherrann hefur verið sakaður um að búa til óvini úr ísraelskum aröbum í aðdraganda kosninga sem haldnar verða þann 9. apríl næstkomandi en arabar eru 17 prósent íbúa í landinu. Hann hefur ítrekað varað við því að andstæðingar hans í ísraelskum stjórnmálum njóti stuðnings araba og að þeir muni þar með láta undan kröfum Palestínumanna.