Tyrk­neski hakkara­hópurinn sem lokað hefur Insta­gram reikningum hjá ís­­lenskum á­hrifa­völdum á síðustu dögum, segist í sam­tali við Frétta­blaðið ekki vera hópur af hökkurum heldur tyrknesk stelpa sem er bú­sett í Istanbúl og gengur undir nafninu Mellis­sa.

Á Insta­gram reikningnum Kingsanchezx hefur hún gortað sig af því að hafa tekið niður reikninga hjá á­hrifa­völdum. Þegar Frétta­blaðið hafði sam­band sagðist hún bara vera að vinna vinnuna sína og hafði í raun ekki hug­­mynd um hverjir þessir á­hrifa­valdar væru.

Hún sagði einnig að ís­lenskur á­hrifa­valdur greiddi sér fyrir að taka reikningana niður og sá hinn sami hafi beðið hana að taka sinn reikning niður til að forðast að liggja undir grun.

Meðal fórnar­lamba hakkarans hingað til eru Birgitta Líf Björns­dóttir, á­hrifa­valdur og eig­andi Banka­­strætis Club, Kristín Péturs­dóttir, á­hrifa­valdur og leik­­kona, Edda Falak, á­hrifa­valdur og cross­fit þjálfari, Dóra Júlía, plötu­snúður og út­varps­kona á­samt fjöl­mörgum öðrum Insta­gram-stjörnum.

Nú síðast hótaði hún síðan Jóni Jóns­­syni tón­listar­manni og sam­fé­lags­miðla­stjörnunni Binna Löve.

„Fólk finnur mig og gefur mér nöfn og reikninga sem þau vilja að ég loki“

Frétta­blaðið kom sér í sam­band við hakkarann til þess að reyna komast að því hvers vegna væri verið að ráðast á ís­­lenska á­hrifa­valda. Kingsanchezx byrjaði á að koma því á fram­­færi að það væri rangt á­­lyktað hjá ís­­lenskum fjöl­­miðlum að hún væri karl­kyns.

„Vin­­sam­­legast þegar þú birtir þetta, taktu fram að ég er ekki strákur,“ sagði hún, sendi stelpu-emoji og sagðist heita Mellis­sa. „Þú mátt alveg birta nafnið mitt. Ís­­land er svo veikt, ég þarf ekkert að fela hver ég er.“

Spurð um af hverju hún hefði valið ís­lenska á­hrifa­valda sagði hún að þetta væri bara sam­kvæmt greiðslu.

„Ég er bara að sinna vinnunni minni. Fólk finnur mig og gefur mér nöfn og reikninga sem þau vilja að ég loki. Þegar ég hef fengið greiðsluna mína vinn ég bara vinnuna mína. Mér er alveg sama hvaða reikningar þetta eru,“ segir hún.

„Einn af á­hrifa­völdunum er að borga mér“

Aðspurð hvort það væri ís­­lenskur aðili sem borgaði fyrir net­á­rásirnar sagði hún svo vera og sá hinn sami hafi einnig beðið hana um að taka sinn eigin reikning niður.

„Einn af á­hrifa­völdunum er að borga mér og til þess að forðast það að liggja undir grun vildi sá á­hrifa­valdur að ég myndi loka reikningnum sínum líka,“ segir hún en vildi ekki gefa upp kyn á­hrifa­valdsins.

Spurð um hvernig þau sam­­skipti fara fram segir hún þau eiga sér stað á sam­­skipta­­for­­ritinu What­sapp.

Hún vildi ekki gefa upp hver það væri sem væri að borga henni. „Ég get ekki svikið við­­skipta­vini mína.“ Aðspurð um kostnaðinn við að láta hakka ein­hvern sagði hún kostnaðinn mjög mis­munandi. Verðið væri allt frá 100 Banda­­ríkja­­dölum upp í 100 þúsund.

Mellissa segist vel þekkt fyrir vinnu sína, bæði í Evrópu og Banda­­ríkjunum og það væri auð­velt að finna númerið hennar á netinu.

Svo virðist sem að Mellis­sa sé hvergi nærri hætt að hrella ís­lenska á­hrifa­valda en hún birti á Insta­gram-reikningi sínum í gær­kvöldi að „slátrun“ tvö væri á leiðinni.

Hún hótaði þá einnig að taka Insta­gram reikning Binna Löve niður næst. „Byrjaðu að hlaupa Binni Löve ég er að koma.“