Nína Richter
Laugardagur 24. september 2022
16.30 GMT

Konur í Íran leiða stóra öldu mótmæla þar sem þær berjast fyrir auknu frelsi undir Íslamska lýðveldinu. Íslamska lýðveldið er leitt af klerkastjórn hverrar leiðtogar hafa gerst sekir um ótal mannréttindabrot og verið sakaðir um stríðsglæpi. Konur njóta takmarkaðra réttinda í ríkinu og eru undir stöðugu eftirliti „siðferðislögreglu,“ sem sökuð er um að beita konur kerfisbundnu ofbeldi.

„Í fyrsta lagi er ég rosalega ringluð, reið og sorgmædd,“ segir írönsk kona, búsett í Reykjavík, um ástandið í heimalandinu. Hún vill af öryggisástæðum ekki koma fram undir nafni, en við getum kallað hana Söru. Sara flutti til Íslands fyrir fimm árum síðan, gegnir stjórnunarstöðu hjá íslensku fyrirtæki, er vel menntuð og á gott tengslanet hér á landi. „Það eru svo margar ólíkar tilfinningar í gangi. Ég lifi mínu hversdagslega lífi á Íslandi, þarf að mæta til vinnu og brosa til fólks,“ segir hún. „Ég get ekki beinlínis rætt þessa hluti stöðugt við kollega mína, að þetta sé að gerast í heimalandinu mínu.“

Skammast sín á Íslandi

Sara segist finna til skammar yfir því að vera á Íslandi þessa stundina, þegar hún finnur til forréttinda sinna. „Þegar ég vakna á morgnana og vel fötin sem ég klæðist og mæti til vinnu. Á sama tíma eru konur í Íran að berjast gegn fyrir algjörum grundvallar mannréttindum,“ segir hún.

„Þetta hlýtur að vera stuðandi að heyra fyrir vestræna manneskju. Og maður þarf ekki einu sinni að vera vestrænn til þess að stuðast,“ útskýrir Sara hugsi og segist telja að aðeins tvö lönd í heiminum skyldi konur til að klæðast hijab. „Það eru Íran og svo Afganistan, eftir að talíbanarnir tóku yfir.“

Sara segir Íran hafa lengi vel verið eina landið í Mið-Austurlöndum sem hafði þennan háttinn á, en Sádi-Arabar hafi hætt að skylda konur til slæðunotkunar fyrir nokkrum árum síðan.

Sara segir konur alls ekki hafa val í Íran, þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda þess efnis.

„Það var drepfyndið og frægt mál þegar forseti Íran var í viðtali hjá Sameinuðu þjóðunum. Konan sem kom til Íran að taka viðtalið var skylduð til að klæðast hijab á meðan viðtalið fór fram. Hún spurði forsetann hvort að konum væri frjálst að velja hijabinn og hann horfði beint framan í hana og sagði: Já, auðvitað. Það er enginn skyldaður til að klæðast hijab í Íran.“

Sara segir stjórnvöld afneita því opinberlega, statt og stöðugt, að skylda sé að klæðast hijab. „En klerkastjórnin tjáir sig áfram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er meðal annars þess vegna sem almenningur í Íran er reiður. Það er hvergi nein raunveruleg framsetning á vilja þegna landsins.“

Frá mótmælum í höfuðborg Íran, Teheran þann 17. september. Erfiðlega hefur gengið að fá fréttaljósmyndir frá Íran síðustu daga en landið er lokað og almenningur hefur ekki aðgang að interneti.
Mynd/Getty

Íranir nota annað tímatal en vestræn ríki og því er árið 1401 í Íran í dag. Sara er hugsi þegar hún rifjar upp mótmæli vegna forsetakosninga sem fram fóru árið 2019. „Nú þarf ég að reikna af því að tímatalið okkar er annað. En einu sinni voru mótmæli á tíu ára fresti og gríðarleg átök. Á níunda og tíunda áratugnum þegar ég var að alast upp, voru níutíu fræðimenn og rithöfundar teknir af lífi af stjórnvöldum. Fjölskylda mín var ofurmeðvituð um þetta og umræðan auðvitað stöðug úti í samfélaginu,“ segir Sara. „Þannig að það er næsta ómögulegt að alast upp í Íran og vera ekki pólitískt þenkjandi. Það er eitthvað sem þú fæðist með. Svona er hversdagurinn í Íran,“ segir hún.

Aðspurð hvort að hún hafi óttast afleiðingar þess að ganga menntaveginn, sem hún sannarlega gerði, svarar Sara. „Já. Algjörlega. Ég held að fólk sé alltaf hrætt og það veit aldrei hvað hvað gerist næsta dag. Ég var að tala við vinkonu mína frá Úkraínu sem sagði orðrétt: Ég er svo sorgmædd af því að ég veit aldrei hvað er að fara að gerast á morgun,“ vitnar Sara í vinkonu sína. „Ég held að það sé tilfinning sem allir Íranir upplifa alla daga, þó að það sé ekkert formlegt stríð í gangi. Það er borgarastríð í gangi milli stjórnvalda og almennings og það hefur verið í gangi mjög lengi.“

Internetið tekið af almenningi

Sara segir mótmælin vera að ná nýju hámarki. „Það er alltaf styttra á milli þessara stóru mótmæla núna. Staðreyndin er sú að almenningur á sér enga rödd í vestrænum fjölmiðlum. Það gerir mig reiða. Það angrar mig og það angrar þjóðina,“ segir hún.

Sara segir að klerkastjórnin hafi slökkt á internet-aðgangi fyrir almenning í Íran. „Það er eitthvað sem þeir lærðu að gera fyrir nokkrum árum. Þá hugsuðu þeir: Jæja, þetta internet er greinilega rosalega öflugt tæki. Þannig að hvenær sem þeir slökkva á netinu getur fólk ekki lengur komið ástandinu á framfæri, getur ekki hlaðið upp myndböndum og ljósmyndum og fólk um allan heiminn fær ekki aðgang að upplýsingum. Og svo fremja þeir fjöldamorð.“

Í gærmorgun reyndi Sara að senda foreldrum sínum og bróður skilaboð, en þau eru búsett í Íran. „Ég sá að skilaboðin komust ekki til þeirra og þá áttaði ég mig á því að þeir hafa slökkt á netinu aftur. Svona gera þeir þetta.“

Sara segir að það nísti að sjá hversu ungir mótmælendurnir eru. „Þau eru bara fimmtán ára gömul úti á götunum. Af hverju á fimmtán ára gömul stúlka að þurfa að fara út á götu og krefjast einhverra grundvallar mannréttinda?“

Sara segir að hitamálið þessa stundina sé hijabinn. „Það er ekki eina málið, að sjálfsögðu. Það eru ofsalega margir hlutir sem eru ekki í lagi. Efnahagsmálin eru í algjöru rugli, það er ritskoðunin og frelsisskerðingin. Allt er rosalega dimmt. En akkúrat núna er áhugavert að fólkið í fremstu línu eru konur. Þær eru að brenna hijabinn.“

Sara þagnar og ræskir sig. „Ég fæ gæsahúð þegar ég tala um þetta.“


Þannig að hvenær sem þeir slökkva á netinu getur fólk ekki lengur komið ástandinu á framfæri, getur ekki hlaðið upp myndböndum og ljósmyndum og fólk um allan heiminn fær ekki aðgang að upplýsingum. Og svo fremja þeir fjöldamorð.


Hún þagnar aftur stutta stund. „En ég sé hversu hugrakkar þær eru. Ég sit hér og ég óttast um öryggi mitt og þori ekki að koma fram undir nafni. En klerkastjórnin hefur margoft látið taka fólk af lífi í öðrum löndum. Það var einn gríðarlega frægur íranskur skemmtikraftur sem var drepinn tíu árum eftir mótmæli sem hann tók þátt í, vegna þess að hann gagnrýndi íslamska ríkið,“ rifjar Sara upp og ítrekar að slíkt hafi gerst margoft. „Þeir senda morðingja til annarra landa. Ísland er auðvitað lítið og það er auðvelt að finna fólk hérna. En samt skammast ég mín smá fyrir að vera hrædd, vegna þess að svona margar konur heima eru að hætta lífi sínu fyrir mótmælin.“

Morðið á Zhina Amini

Þessi tiltekna alda mótmæla hófst með dauða hinnar 22 ára gömlu Zhina Amini sem var handtekin af „siðferðislögreglunni“ þann 16. september fyrir að klæðast hijabinum á „rangan máta.“

Sara segir að Amini hafði nýlega verið samþykkt inn í háskóla í Teheran þegar hún var myrt. „Hana langaði að fara til Teheran með bróður sínum að skoða skólann. Þeir handtóku hana og þremur tímum seinna var hún í dái. Stjórnvöld sögðu að orsökin væri hjartaáfall og svo að hún hefði fengið flogakast. En foreldrar hennar neituðu þessu öllu og sögðu að hún væri fullkomlega heilbrigð. En svo fóru myndir á flakk sem sýndu meiðsli og blæðingu úr eyra og þá þótti augljóst að um heilaskaða af völdum höggs væri að ræða,“ segir Sara.

Sara ítrekar að það sé ekki hægt að heimta þessi réttindi vinsamlega, þar sem gríðarlega mikið sé í húfi fyrir klerkastjórnina. „Mér finnst sú staðreynd að íranskar konur séu að brenna hijabinn mjög falleg framsetning. Frá upphafi byltingarinnar var einn stærsti þátturinn í innleiðingu íslamska ríkisins kvennakúgun og innleiðing hijabsins,“ segir hún. „Þeir geta ekki látið undan þessum kröfum vegna þess að með því er íslamska lýðveldið fallið og orðið eitthvað allt annað.“

Aðspurð hvort að hún geti hugsað sér að fara heim á ný, svarar Sara. „Ég veit að það er galið, en ég var að hugsa um það í gær að kannski ætti ég bara að kaupa flugmiða og fara heim og vera þar, af því að mér líður ömurlega yfir að vera hérna. En á sama tíma er þetta ógeðslega ógnvekjandi, þetta er spurning um líf og dauða og ég held satt að segja að mig skorti hugrekkið til að gera það,“ segir hún.

„Ég vil alls ekki fara aftur heim. Ótti er ekki stærsta ástæðan heldur frekar sú staðreynd að ég hata þetta ástand. Ég hugsa mér að ég vilji ekki fara aftur heim fyrr en ég þarf ekki að klæðast þessum hijab lengur. Þú þarft að setja hann upp um leið og þú stígur um borð í flugvélina. Annars geturðu verið handtekin og fleira getur gerst,“ segir Sara.

Frjálst Íran er stærsti draumurinn

Sara segist ekki bjartsýn á að ástandið breytist og segir að upphafi hafi fólk talið að klerkastjórnin yrði skammlíft stjórnarfar. Í dag bendi margt til þess að hún sé að verða valdameiri og fái jafnvel stuðning frá Rússum og Kínverjum. „Og allt vestræna samfélagið kóar með. Núna er íranski forsetinn í heimsókn í Bandaríkjunum til að ræða við Sameinuðu þjóðirnar. Frakkland og Þýskaland eru í alvörunni í einhverjum samningaviðræðum við þá. Á meðan þetta er að gerast í Íran,“ segir Sara.

„Það er stærsti draumur ævi minnar að sjá frjálst Íran. En á sama tíma finnst mér þessi draumur svo órafjarri. Kannski eru blikur á lofti, en ég er ekki bjartsýn. Ég vil ekki fara heim vegna þess að mér finnst þetta hræðilegt. Að vera í landi þar sem komið er fram við konur eins og skít.“

Kona brennir hijab á samstöðumótmælum í Kaliforníuríki. Á bakvið má sjá ljósmyndir af Zinu Amini.
Mynd/EPA

Að sögn Söru eru flest systkini hennar flutt frá Íran og foreldrar hennar vilji líka yfirgefa landið. Þó geri þau það með tregðu, enda séu þau orðin fullorðin og ræturnar sterkar. „Þau hafa sterk tengsl við landið og vilja helst ekki yfirgefa það. En þau eru farin að hugsa um að fara. Ég á enga vini í landinu lengur. Held að ég þekki bara eina eða tvær manneskjur þar í dag. Ástandið er að stigmagnast og fólk er að flýja í hrönnum.“

En man Sara eftir fyrsta augnablikinu þegar hún ferðaðist utan Íran sem fullorðin manneskja og tók niður hijabinn?

Sara brosir áður en hún svarar. „Já, auðvitað. Ég man það rosalega vel. Ég var sautján ára og var að ferðast. Börn þurfa auðvitað ekki að klæðast hijab og ég hafði ekki áttað mig almennilega á þessu. En sautján ára þurfti ég að klæðast hijab í Íran. Ég ferðaðist til Tyrklands, sem er auðvitað múslímaríki, en það er mjög ólíkt. Þar er enginn skyldaður til að klæðast hijab,“ segir hún. „Þarna vorum við mamma, hún fór úr hijabinum og fannst það óþægilegt og var feimin við það. Ég gerði það líka en samt... bara það að finna vindinn á hálsinum og eyrunum var rosalega skrýtið.“

Þó var óttinn aldrei langt undan. „Hvenær sem ég sá lögreglubíl varð ég rosalega hrædd. Þetta er ekki bara mín upplifun heldur eiginlega allra íranskra kvenna sem ég hef rætt þessa hluti við. Þær skrifa um þetta á samfélagsmiðlum, fyrstu skiptin sem þær hafa tekið af sér hijabinn á almannafæri erlendis. Þessi rosalegi ótti við alla bíla sem nálgast. Þetta er alltaf eins,“ segir Sara.

Sara segist hafa forðast ákveðnar götur og svæði þegar hún bjó í Íran og segir konur vara hvora aðra við ef þær sjá „siðferðislögregluna“ á sveimi.

„Þeir safna konum í sendiferðabíla og keyra þær í svona lögreglumiðstöðvar, ekki lögreglustöðvar. Þeir gera svo bara hvað sem þeir vilja við konurnar. Oft er þeim nauðgað en þetta er eitthvað sem enginn talar um,“ segir Sara.

Frá samstöðumótmælum í Los Angeles.
Mynd/Getty

„Það sem hrundi þessari öldu mótmæla af stað í þetta sinn, var sú staðreynd að hún dó. Það eru svo svakalega margar konur sem ... ef þú sérð myndir af henni, sem voru teknar þegar hún var handtekin. Hún klæddist slæðunni og hún var svolítið laus, og það sást í hárið á henni. Þess vegna tóku þeir hana. Það eru svo margar breytur sem geta valdið því að konur eru handteknar. Eins og naglalakk á höndum. Það getur kallað á handtöku. Ef buxurnar eru aðeins of stuttar og sést í ökklann. Ef kona er í litskrúðugum fötum er hægt að handtaka hana. Þetta er bara geðþóttaákvörðun.“

Femínismi á villigötum

Sara segir umræðuna um hijabinn á villigötum á Íslandi og í þessum heimshluta. „Fólk segir að þetta sé bara val og þetta ætti að vera val. Að þetta sé eitthvað rosalega fallegt,“ segir hún og vitnar í orð fyrirsætunnar Bellu Hadid sem hafði álasað móður sinni fyrir að svíkja sig um upplifun af tengslum við heimalandið. „Hún saknaði þess eitthvað að fá að upplifa þennan part af sjálfri sér. En fyrir mig sem er fædd og alin upp í Íran er ég einfaldlega stolt af stjórnvöldum í Frakklandi og Belgíu, sem hreinlega bönnuðu búrkuna. Ég sé þetta sem tæki til kvennakúgunar. Það er ekki til neitt annað orð yfir það.“

Sara segir að ungar stúlkur, um tólf ára gamlar, séu neyddar af fjölskyldum sínum til að setja upp hijabinn. „Það var ekki þannig í mínu tilfelli af því að fjölskylda mín er ekki þannig þenkjandi. En það eru svo margar konur sem eru aldar upp við svona umhverfi. Til dæmis vinkona mín sem býr í Hollandi í dag, og hún hatar gersamlega að klæðast hijabinum. En hvenær sem hún þarf að taka vídjóspjall við fjölskylduna klæðir hún sig í hijabinn.“

Að sögn Söru er pressan nokkuð bundin við fjölskyldur og misjafnt hvenær og hversu mikið dæturnar eru neyddar til að hylja sig. „En í áranna rás hefur fólk í Íran í auknum mæli farið að skilja að þetta hefur ekkert að gera með trúna heldur bara kúgun kvenna,“ segir hún.

„Ég er ógeðslega þreytt á því að heyra fólk mála þetta einhverjum rómantískum litum, að þessi hluti menningar Mið-Austurlanda sé svo fallegur. Þetta nístir mig. Það er ekkert fallegt við þetta, þetta er ekki val þessara kvenna. Þetta er eitthvað sem fjölskyldur þeirra neyða þær til að gera og þær geta ekki einu sinni tekið þetta niður, án þess að finnast þær vera að gera eitthvað rangt.“

Sara segir að rödd íranskra kvenna hafi verið kæfð í vestrænum fjölmiðlum. „Viðkvæðið er alltaf að verið sé að hlusta. Og auðvitað er Íran fallegt land og margt fallegt við það. En það er þessi myrka hlið - ég vildi að fólk myndi heyra hana oftar og gangast við þeirri staðreynd að það er gríðarlegur fjöldi kvenna þarna. Þetta er 80 milljóna manna land og þarna eru fjörutíu milljónir kvenna.“

Sara segir íslenskar konur og norrænar konur vera stöðugt að tala um jafnrétti kynjanna, en það dugi skammt þegar komi að málefnum kvenna í Íran. „En ég hef ekki heyrt eina manneskju tala um þessi mál. Femínistarnir hér vilja miklu frekar tala um það sem er auðvelt í femínismanum. Sjálfsfróunar-tabú eða eitthvað. Auðvitað er það alveg mikilvægt líka. En ef við ætlum í alvöru að tala um kvenréttindi, eigum við þá ekki að tala um réttindi fyrir allar konur í heiminum? Þetta angrar mig mjög mikið.“

Athugasemdir