Aðalmeðferð fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í máli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn Elínborgu Hörpu Önundardóttur. Henni er meðal annars gefið að sök að hafa framið valdstjórnarbrot með því að sparka í lögreglumann og brotið gegn 19. grein lögreglulaga sem kveður á um skyldu að fylgja fyrirmælum lögreglunnar. Elínborg var handtekin í það minnsta fjórum sinnum í mótmælum sem skipulögð voru til stuðnings við flóttafólk á Íslandi. Mótmælin fóru fram við Alþingi, dómsmálaráðuneytið, á Lækjartorgi og við lögreglustöðina á Hverfisgötu.
Ákæran er í fjórum liðum en alvarlegasti ákæruliðurinn snýr að því að á mótmælum á Austurvelli þann 11. mars er Elínborgu gert að sök að hafa „sparkað ítrekað í fætur lögreglumanns með þeim afleiðingum að hann hlaut eymsli,“ á sama tíma og umræddur lögreglumaður dró hana í burtu.
„Það á að hafa gerst eftir að lögreglan réðst að okkur því þeir héldu að við ætluðum að vera með einhvers konar bálköst. Sem mér finnst mjög áhugavert að þeir fái að halda því fram að það hafi verið bálköstur, það var enginn bálköstur. Þetta voru bara pappaspjöld sem við vorum að skrifa á og sitja á,“ segir Elínborg í samtali við Fréttablaðið.
Hún segir að að því loknu hafi hún verið dregin út úr hópnum og þá hafi lögreglumaður öskrað á hana að hún hafi sparkað í hann og svo handtekið hana. Lögreglan þröngvaði sér inn í hóp mótmælenda og beitti að lokum piparúða til að leysa upp mótmælin.
„Ég man ekki eftir að hafa sparkað í neinn,“ segir Elínborg og bendir á að það hafi ekki sést á neinum myndböndum sem voru tekin og sýnd við aðalmeðferðina í dag. Tveir eru til vitnis um meint spörk Elínborgar, lögreglumaðurinn sem segist hafa orðið fyrir brotinu og svo kollegi hans sem stóð nálægt honum við mótmælin. Aðrir sem báru vitni við aðalmeðferðina neituðu því að hafa séð Elínborgu beita lögregluna ofbeldi.
Verjandi Elínborgar, héraðsdómslögmaðurinn Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, vakti athygli á því í málflutningi sínum að lögreglumennirnir hafi verið algjörlega samhljóða um málsatvik í skýrslum sem teknar voru af þeim varðandi málið og taldi það til vitnis um ótrúverðugleika þeirra. Þá telur hún það jafnframt ósannað að lögreglumaðurinn hafi fundið fyrir eymslum enda sé ekkert áverkavottorð sem staðfesti þá frásögn.
Viðbrögð yfirvalda voru margra mánaða þögn
Elínborg segir að mótmælin 11. mars hafi verið partur af átta mánaða herferð fyrir bættum mannréttindum flóttafólks. Lagðar hafi verið fram fimm kröfur með því markmiði að bæta grundvallarmannréttindi flóttafólks en meðal þeirra voru að hætta brottvísunum hælisleitenda og lokun flóttamannabúðanna á Ásbrú. Helsta markmið mótmælanna hafi verið að koma á fundi með yfirvöldum til að ræða þessar kröfur.
„Það hefði verið svo auðvelt að koma til móts við þetta og binda enda á þetta en yfirvöld höfðu bara algjörlega hunsað okkur,“ segir Elínborg og bætir að viðbrögð yfirvalda við mótmælunum hafi verið lítil sem engin og samanstaðið af margra mánaða þögn.
Hún lýsir því að hugmyndin að því að tjalda við Alþingishúsið hafi verið fengin frá Noregi en að um leið og þau hafi reynt að reisa tjöld á Austurvelli hafi þau verið tekin niður af lögreglu. Veðrið hafi verið mjög slæmt og því hafi þau setið á pappaspjöldum sem þau voru með. Hún segist ekki vita hvaðan lögregla hafi fengið þær hugmyndir að mótmælendur hafi ætlað að kveikja bálköst.
„Það var enginn með olíu og ég veit ekki til þess að nokkur hafi verið með kveikjara,“ segir Elínborg.
Hún furðar sig á því að lögreglumaðurinn sem hún á að hafa sparkað í hafi ekki fengið áverkavottorð og segir að samkvæmt skýrslunni hafi hann varla fengið marblett.
„Ef hann hefur fengið marblett hefur það verið vegna þess að hann hefur sett fætur og hendur í mig því hann var að handtaka mig. Ég var líka mjög aum eftir þetta,“ segir Elínborg.

Ákærð fyrir listrænan mótmælagjörning
Önnur ákæran er vegna mótmæla sem áttu sér stað fyrir framan Alþingi 19. mars 2019 þegar mótmælendur röðuðu sér fyrir framan inngang og framkvæmdu listrænan mótmælagjörning þar sem þau lyftu höndum með skilaboð rituð í lófa og límband fyrir munni. Fólk sem átti erindi að Alþingi gat þó auðveldlega komist inn og út úr þinginu eins og Sara Elísa Þórðardóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, staðfesti í vitnisburði við aðalmeðferðina í dag.
Sara sagðist hafa gengið fram hjá hópnum á leið sinni til vinnu á Alþingi og samkvæmt henni var henni ekki meinaður aðgangur að þinghúsinu og komst auðveldlega fram hjá mótmælendunum.
„Ég varð aldrei vör við neina ógnandi tilburði af höndum hópsins,“ sagði Sara í vitnisburði sínum.
Stuttu eftir að mótmælendur stilltu sér upp fyrir framan Alþingi kom lögreglan og krafðist þess að þau færu frá dyrunum sem Elínborg segir að þau hafi ekki verið að hamla. Einn var handtekinn og Elínborg reyndi að ræða við lögreglumanninn um handtökuna og bað hann að tala ensku því stór hluti mótmælenda væri ekki íslenskumælandi. Hún var svo handtekin sjálf stuttu síðar og ákærð fyrir brot á 19. grein lögreglulaga.
Skipuðu mótmælendum að yfirgefa ráðuneytið og læstu svo dyrunum
Svipað var uppi á teningnum þegar Elínborg var handtekin við mótmæli í dómsmálaráðuneytinu þann 5. apríl 2019. Þá höfðu um það bil 9 manns komið saman í setuverkfalli í inngangi ráðuneytisins sem var liður í herferðinni til stuðnings flóttafólki og hafði verið endurtekið nokkrum sinnum. Óskað var eftir aðstoð lögreglu sem var mætt stuttu síðar og gaf mótmælendum fyrirmæli um að yfirgefa ráðuneytið ellegar yrðu þau handtekin. Hluti hópsins hætti mótmælum en hluti hans, Elínborg þar á meðal, sat áfram og voru þau handtekin.
Elínborg er gagnrýnin á það hversu lítinn tíma mótmælendur fengu til að yfirgefa anddyrið og mótmælin yfirleitt. Hún segir að fyrirmæli lögreglu hafi aldrei verið skýr, það eina sem hafi verið skýrt var að ef þau myndu ekki yfirgefa svæðið yrðu þau handtekin. Lögreglan hafi jafnframt læst hurðinni að ráðuneytinu fljótlega eftir að hún kom á svæðið.
„Þetta eru náttúrlega mjög óþægilegar aðstæður og maður hlýtur að mega að fá smá tíma til að átta sig á að það sé verið að banna þér að nýta mótmælarétt og tjáningarfrelsi þegar þú ert ekki að skaða sjálfa þig, þú ert ekki að skaða neinn annan, þú ert ekki að eyðileggja neitt og þú ert ekki einu sinni að trufla,“ segir Elínborg.
Bauð andlega veikum manni stuðning í Austurstræti
Síðasti ákæruliðurinn fjallar um atvik sem átti sér stað í Austurstræti 29. júní 2019. Þá sat Elínborg ásamt vinkonu fyrir utan veitingastaðinn Apotek að drekka kaffi. Hún hafi heyrt óp og séð mann í annarlegu andlegu ástandi sem var afklæða sig og gefið sig á tal við lögreglumenn sem voru að hafa afskipti af manninum.
„Ég er náttúrlega sjálf þarna búin að vera að lenda í því að lögreglan sé að áreita mann og sé oft mjög ósanngjörn. Það sem ég vil gjarnan er að fólk reyni að standa með hvort öðru þegar lögreglan er að hafa afskipti af þeim. Það þýðir ekki að ráðast á lögregluna og trufla hana heldur bara að vera vitni og spyrja einstaklinginn hvernig líður þér, viltu að ég sé hérna meðan þetta er í gangi. Þannig það er það sem ég gerði,“ segir Elínborg.
Hún segist hafa spurt manninn hvort hann vildi að hún stæði þarna hjá honum sem hann hafi svarað játandi. Lögreglan hafi þá reiðst og spurt hana hvort hún þekkti manninn sem hún hafi neitað og hafi þar næst hrint henni upp að vegg og krafið hana um nafn og kennitölu. Fyrir þetta atvik var Elínborg ákærð fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögreglunnar.

Ekki bjartsýn um stöðu sína
Spurð um stöðu hennar í málinu segir Elínborg hana ekki góða miðað við fyrri dómaframkvæmd.
„Ég held eiginlega bara að ég verði sakfelld fyrir alla ákæruliðina. Það er búið að sakfella þrjá fyrir málið í dómsmálaráðuneytinu og íslenska dómskerfið hefur ítrekað látið 19. grein lögreglulaga um að fylgja eigin fyrirmælum trompa mótmæla- og tjáningarfrelsi. Það hefur ítrekað gerst síðustu tíu, tuttugu ár. Ég tel það mjög alvarlegt en íslenska dómskerfið virðist ekki gera það. Þannig ég er ekki bjartsýn,“ segir Elínborg.
Elínborg segir að þrátt fyrir að mótmælendur hafi ekki fengið fund með yfirvöldum eða þau orðið við kröfum þeirra þá hafi orðin mikil vitundarvakning í samfélaginu um málefni hælisleitenda og aðbúnað flóttafólks.
„Ríkisstjórnin tók það ekki til sín og ef eitthvað er hafa þau hert aðgerðir gegn fólki á flótta enn meira, jafnvel þótt þau vilji láta það líta út fyrir að vera öfugt. Einangrun hefur aukist og það hefur ekki einu sinni verið litið á kröfurnar,“ segir Elínborg.
Spurð hvort viðbrögð lögreglu og ákærurnar hafi orðið til þess að fólk mótmæli síður telur Elínborg að það geti vel verið og að það hafi jafnvel orðið til þess að aðgerðirnar séu síður gerðar í björtu ljósi.
„Sjálf hef ég upplifað það á mótmælum ári síðar að lögreglumaður sussar á mig og ég hugsa eru þetta fyrirmæli, ætlar hann að handataka mig. Því þetta var lögreglumaður sem hafði áður handtekið mig. Klárlega hefur þetta áhrif, líka bara andleg áhrif. Fólk sem hefur lent í þessu, ég veit ekki hvort það muni treysta lögreglunni aftur,“ segir Elínborg.
Hún telur að líklega hafi það áhrif hversu oft hún hefur verið handtekin og þykir það koma vel fram í máli eins lögreglumanns sem sagði það í vitnisburði sínum að mótmælin á Austurvelli 19. mars hafi hætt eftir að Elínborg var handtekin.
„Í fyrsta lagi þá hættu mótmælin ekki heldur flutti fólk sig upp á lögreglustöðina á Hverfisgötu til að mótmæla þar fyrir framan. Þannig það er alls ekki satt, en mér finnst það lýsa þeirra hugsunarhætti,“ segir Elínborg.
Í málflutningi sínum fór sækjandi héraðssaksóknara, Halldór Rósmundur Guðjónsson, fram á tveggja mánaða fangelsisdóm yfir Elínborgu og 10.000 króna sekt fyrir hvert það skipti þar sem hún fór ekki eftir fyrirmælum lögreglu. Verjandi Elínborgar, fór hins vegar fram á að Elínborg yrði sýknuð í öllum ákæruliðum. Dómskvaðning mun fara fram á næstu vikum.