Aðal­með­ferð fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í máli lög­reglu­stjórans á höfuð­borgar­svæðinu gegn Elín­borgu Hörpu Önundar­dóttur. Henni er meðal annars gefið að sök að hafa framið vald­stjórnar­brot með því að sparka í lög­reglu­mann og brotið gegn 19. grein lög­reglu­laga sem kveður á um skyldu að fylgja fyrir­mælum lög­reglunnar. Elín­borg var hand­tekin í það minnsta fjórum sinnum í mót­mælum sem skipu­lögð voru til stuðnings við flótta­fólk á Ís­landi. Mót­mælin fóru fram við Al­þingi, dóms­mála­ráðu­neytið, á Lækjar­torgi og við lög­reglu­stöðina á Hverfis­götu.

Á­kæran er í fjórum liðum en al­var­legasti á­kæru­liðurinn snýr að því að á mót­mælum á Austur­velli þann 11. mars er Elín­borgu gert að sök að hafa „sparkað í­trekað í fætur lög­reglu­manns með þeim af­leiðingum að hann hlaut eymsli,“ á sama tíma og um­ræddur lög­reglu­maður dró hana í burtu.

„Það á að hafa gerst eftir að lög­reglan réðst að okkur því þeir héldu að við ætluðum að vera með ein­hvers konar bál­köst. Sem mér finnst mjög á­huga­vert að þeir fái að halda því fram að það hafi verið bál­köstur, það var enginn bál­köstur. Þetta voru bara pappa­spjöld sem við vorum að skrifa á og sitja á,“ segir Elín­borg í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir að að því loknu hafi hún verið dregin út úr hópnum og þá hafi lög­reglu­maður öskrað á hana að hún hafi sparkað í hann og svo hand­tekið hana. Lögreglan þröngvaði sér inn í hóp mótmælenda og beitti að lokum piparúða til að leysa upp mótmælin.

„Ég man ekki eftir að hafa sparkað í neinn,“ segir Elín­borg og bendir á að það hafi ekki sést á neinum mynd­böndum sem voru tekin og sýnd við aðal­með­ferðina í dag. Tveir eru til vitnis um meint spörk Elín­borgar, lög­reglu­maðurinn sem segist hafa orðið fyrir brotinu og svo kollegi hans sem stóð ná­lægt honum við mót­mælin. Aðrir sem báru vitni við aðal­með­ferðina neituðu því að hafa séð Elín­borgu beita lög­regluna of­beldi.

Verjandi Elín­borgar, héraðs­dóms­lög­maðurinn Auður Tinna Aðal­bjarnar­dóttir, vakti at­hygli á því í mál­flutningi sínum að lög­reglu­mennirnir hafi verið al­gjör­lega sam­hljóða um máls­at­vik í skýrslum sem teknar voru af þeim varðandi málið og taldi það til vitnis um ó­trú­verðug­leika þeirra. Þá telur hún það jafn­framt ó­sannað að lög­reglu­maðurinn hafi fundið fyrir eymslum enda sé ekkert á­verka­vott­orð sem stað­festi þá frá­sögn.

Við­brögð yfir­valda voru margra mánaða þögn

Elín­borg segir að mót­mælin 11. mars hafi verið partur af átta mánaða her­ferð fyrir bættum mann­réttindum flótta­fólks. Lagðar hafi verið fram fimm kröfur með því mark­miði að bæta grund­vallar­mann­réttindi flótta­fólks en meðal þeirra voru að hætta brott­vísunum hælis­leit­enda og lokun flóttamannabúðanna á Ásbrú. Helsta mark­mið mót­mælanna hafi verið að koma á fundi með yfir­völdum til að ræða þessar kröfur.

„Það hefði verið svo auð­velt að koma til móts við þetta og binda enda á þetta en yfir­völd höfðu bara al­gjör­lega hunsað okkur,“ segir Elín­borg og bætir að við­brögð yfir­valda við mót­mælunum hafi verið lítil sem engin og saman­staðið af margra mánaða þögn.

Hún lýsir því að hug­myndin að því að tjalda við Al­þingis­húsið hafi verið fengin frá Noregi en að um leið og þau hafi reynt að reisa tjöld á Austur­velli hafi þau verið tekin niður af lög­reglu. Veðrið hafi verið mjög slæmt og því hafi þau setið á pappa­spjöldum sem þau voru með. Hún segist ekki vita hvaðan lög­regla hafi fengið þær hug­myndir að mót­mælendur hafi ætlað að kveikja bál­köst.

„Það var enginn með olíu og ég veit ekki til þess að nokkur hafi verið með kveikjara,“ segir Elín­borg.

Hún furðar sig á því að lög­reglu­maðurinn sem hún á að hafa sparkað í hafi ekki fengið á­verka­vott­orð og segir að sam­kvæmt skýrslunni hafi hann varla fengið mar­blett.

„Ef hann hefur fengið mar­blett hefur það verið vegna þess að hann hefur sett fætur og hendur í mig því hann var að hand­taka mig. Ég var líka mjög aum eftir þetta,“ segir Elín­borg.

Ákæra Elínborgar er í fjórum liðum en henni er meðal annars gefið að sök að hafa framið vald­stjórnar­brot með því að sparka í lög­reglu­mann.
Fréttablaðið/Anton Brink

Á­kærð fyrir list­rænan mót­mæla­gjörning

Önnur á­kæran er vegna mót­mæla sem áttu sér stað fyrir framan Al­þingi 19. mars 2019 þegar mót­mælendur röðuðu sér fyrir framan inn­gang og fram­kvæmdu list­rænan mót­mæla­gjörning þar sem þau lyftu höndum með skila­boð rituð í lófa og lím­band fyrir munni. Fólk sem átti erindi að Al­þingi gat þó auð­veld­lega komist inn og út úr þinginu eins og Sara Elísa Þórðar­dóttir, fyrr­verandi þing­maður Pírata, stað­festi í vitnis­burði við aðal­með­ferðina í dag.

Sara sagðist hafa gengið fram hjá hópnum á leið sinni til vinnu á Al­þingi og sam­kvæmt henni var henni ekki meinaður að­gangur að þing­húsinu og komst auð­veld­lega fram hjá mót­mælendunum.

„Ég varð aldrei vör við neina ógnandi til­burði af höndum hópsins,“ sagði Sara í vitnis­burði sínum.

Stuttu eftir að mót­mælendur stilltu sér upp fyrir framan Al­þingi kom lög­reglan og krafðist þess að þau færu frá dyrunum sem Elín­borg segir að þau hafi ekki verið að hamla. Einn var hand­tekinn og Elín­borg reyndi að ræða við lög­reglu­manninn um hand­tökuna og bað hann að tala ensku því stór hluti mót­mælenda væri ekki ís­lensku­mælandi. Hún var svo hand­tekin sjálf stuttu síðar og á­kærð fyrir brot á 19. grein lög­reglu­laga.

Skipuðu mót­mælendum að yfir­gefa ráðu­neytið og læstu svo dyrunum

Svipað var uppi á teningnum þegar Elín­borg var hand­tekin við mót­mæli í dóms­mála­ráðu­neytinu þann 5. apríl 2019. Þá höfðu um það bil 9 manns komið saman í setu­verk­falli í inn­gangi ráðu­neytisins sem var liður í her­ferðinni til stuðnings flótta­fólki og hafði verið endur­tekið nokkrum sinnum. Óskað var eftir að­stoð lög­reglu sem var mætt stuttu síðar og gaf mót­mælendum fyrir­mæli um að yfir­gefa ráðu­neytið ellegar yrðu þau hand­tekin. Hluti hópsins hætti mót­mælum en hluti hans, Elín­borg þar á meðal, sat á­fram og voru þau hand­tekin.

Elín­borg er gagn­rýnin á það hversu lítinn tíma mót­mælendur fengu til að yfir­gefa and­dyrið og mót­mælin yfir­leitt. Hún segir að fyrir­mæli lög­reglu hafi aldrei verið skýr, það eina sem hafi verið skýrt var að ef þau myndu ekki yfir­gefa svæðið yrðu þau hand­tekin. Lög­reglan hafi jafn­framt læst hurðinni að ráðu­neytinu fljót­lega eftir að hún kom á svæðið.

„Þetta eru náttúr­lega mjög ó­þægi­legar að­stæður og maður hlýtur að mega að fá smá tíma til að átta sig á að það sé verið að banna þér að nýta mót­mæla­rétt og tjáningar­frelsi þegar þú ert ekki að skaða sjálfa þig, þú ert ekki að skaða neinn annan, þú ert ekki að eyði­leggja neitt og þú ert ekki einu sinni að trufla,“ segir Elín­borg.

Bauð and­lega veikum manni stuðning í Austur­stræti

Síðasti á­kæru­liðurinn fjallar um at­vik sem átti sér stað í Austur­stræti 29. júní 2019. Þá sat Elín­borg á­samt vin­konu fyrir utan veitinga­staðinn Apot­ek að drekka kaffi. Hún hafi heyrt óp og séð mann í annar­legu and­legu á­standi sem var af­klæða sig og gefið sig á tal við lög­reglu­menn sem voru að hafa af­skipti af manninum.

„Ég er náttúr­lega sjálf þarna búin að vera að lenda í því að lög­reglan sé að á­reita mann og sé oft mjög ó­sann­gjörn. Það sem ég vil gjarnan er að fólk reyni að standa með hvort öðru þegar lög­reglan er að hafa af­skipti af þeim. Það þýðir ekki að ráðast á lög­regluna og trufla hana heldur bara að vera vitni og spyrja ein­stak­linginn hvernig líður þér, viltu að ég sé hérna meðan þetta er í gangi. Þannig það er það sem ég gerði,“ segir Elín­borg.

Hún segist hafa spurt manninn hvort hann vildi að hún stæði þarna hjá honum sem hann hafi svarað játandi. Lög­reglan hafi þá reiðst og spurt hana hvort hún þekkti manninn sem hún hafi neitað og hafi þar næst hrint henni upp að vegg og krafið hana um nafn og kenni­tölu. Fyrir þetta at­vik var Elín­borg á­kærð fyrir að fylgja ekki fyrir­mælum lög­reglunnar.

Fjölmargir mættu í Héraðsdóm til að sýna Elínborgu Hörpu stuðning en færri komust að í dómssal en vildu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ekki bjart­sýn um stöðu sína

Spurð um stöðu hennar í málinu segir Elín­borg hana ekki góða miðað við fyrri dóma­fram­kvæmd.

„Ég held eigin­lega bara að ég verði sak­felld fyrir alla á­kæru­liðina. Það er búið að sak­fella þrjá fyrir málið í dóms­mála­ráðu­neytinu og ís­lenska dóms­kerfið hefur í­trekað látið 19. grein lög­reglu­laga um að fylgja eigin fyrir­mælum trompa mót­mæla- og tjáningar­frelsi. Það hefur í­trekað gerst síðustu tíu, tuttugu ár. Ég tel það mjög al­var­legt en ís­lenska dóms­kerfið virðist ekki gera það. Þannig ég er ekki bjart­sýn,“ segir Elín­borg.

Elín­borg segir að þrátt fyrir að mót­mælendur hafi ekki fengið fund með yfir­völdum eða þau orðið við kröfum þeirra þá hafi orðin mikil vitundar­vakning í sam­fé­laginu um mál­efni hælis­leit­enda og að­búnað flótta­fólks.

„Ríkis­stjórnin tók það ekki til sín og ef eitt­hvað er hafa þau hert að­gerðir gegn fólki á flótta enn meira, jafn­vel þótt þau vilji láta það líta út fyrir að vera öfugt. Ein­angrun hefur aukist og það hefur ekki einu sinni verið litið á kröfurnar,“ segir Elín­borg.

Spurð hvort við­brögð lög­reglu og á­kærurnar hafi orðið til þess að fólk mót­mæli síður telur Elín­borg að það geti vel verið og að það hafi jafn­vel orðið til þess að að­gerðirnar séu síður gerðar í björtu ljósi.

„Sjálf hef ég upp­lifað það á mót­mælum ári síðar að lög­reglu­maður sussar á mig og ég hugsa eru þetta fyrir­mæli, ætlar hann að handa­taka mig. Því þetta var lög­reglu­maður sem hafði áður hand­tekið mig. Klár­lega hefur þetta á­hrif, líka bara and­leg á­hrif. Fólk sem hefur lent í þessu, ég veit ekki hvort það muni treysta lög­reglunni aftur,“ segir Elín­borg.

Hún telur að lík­lega hafi það á­hrif hversu oft hún hefur verið hand­tekin og þykir það koma vel fram í máli eins lög­reglu­manns sem sagði það í vitnis­burði sínum að mót­mælin á Austur­velli 19. mars hafi hætt eftir að Elín­borg var hand­tekin.

„Í fyrsta lagi þá hættu mót­mælin ekki heldur flutti fólk sig upp á lög­reglu­stöðina á Hverfis­götu til að mót­mæla þar fyrir framan. Þannig það er alls ekki satt, en mér finnst það lýsa þeirra hugsunar­hætti,“ segir Elín­borg.

Í mál­flutningi sínum fór sækjandi héraðs­sak­sóknara, Hall­dór Rós­mundur Guð­jóns­son, fram á tveggja mánaða fangelsis­dóm yfir Elín­borgu og 10.000 króna sekt fyrir hvert það skipti þar sem hún fór ekki eftir fyrir­mælum lög­reglu. Verjandi Elín­borgar, fór hins vegar fram á að Elín­borg yrði sýknuð í öllum á­kæru­liðum. Dómskvaðning mun fara fram á næstu vikum.