Rætt var um kynþáttahyggju á Íslandi í Silfrinu í dag. Umræða um kerfisbundinn rasisma hefur farið á flug í íslensku samfélagi á síðustu dögum, einkum í tengslum við atvik þar sem ungur drengur var tvívegis stöðvaður af lögreglu vegna meintra líkinda hans við strokufanga sem var dökkur á hörund.

„Mér finnst skrýtið að senda sérsveitina inn í strætó til að handtaka einhvern krakka í neyslu, þótt hann hefði verið strokufanginn,“ sagði Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður Borgarahreyfingarinnar, um atvikin. „Hvað erum við að gera? Ég veit ekki hvort það hefði verið gert ef strokufanginn hefði verið hvítur. Af hverju hefði hann átt að vera í strætó, eða í bakarí með mömmu sinni?“

Margrét veik einnig að nýlegri deilu sem reis um styttu Ásmundar Sveinssonar af Guðríði Þorbjarnardóttur. Styttan ber nafnið „Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku“ og var henni nýlega stolið af stalli sínum í tengslum við listagjörning Bryndísar Björnsdóttur og Steinunnar Gunnlaugsdóttur, sem sögðu verkið rasískt.

Margrét vitnaði í ummæli Kristins Jónassonar, bæjarstjóra í Snæfellsbæ: Þegar ég var krakki þá borðaði ég Sambólakkrís og Negrakossa og við vorum alltaf að syngja um 10 litla negrastráka og í því fólust engin rasísk skilaboð af einu eða neinu tagi. „Halló, maður veit ekki hvar maður á að byrja,“ sagði Margrét. „Við erum rasískt samfélag, auðvitað erum við það! Þegar sú stytta var gerð 1939 voru örugglega allir á Íslandi rasistar því það var bara ríkjandi hugmyndafræði, og við erum enn bara að vinna úr því. Auðvitað er kerfislægur rasismi á Íslandi, auðvitað.“

Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, tók í svipaðan streng. „Í hvert sinn sem fólk sem flytur hingað og reiðir sig á útlendingalöggjöfina vill ræða þennan rasisma, þá verða þau alltaf spurð, en er rasismi á Íslandi? Það liggur í augum uppi, fólk finnur fyrir honum. […] Svo erum við með innviðaráðherra sem lætur ósnyrtileg ummæli falla. Svo vill svo til að ungur drengur er tekinn í misgripum tvisvar og á ofboðslega sterka móður sem getur verið málsvari hans. Við höfum ekki sýnt burðina til að fara kerfisbundið í þetta.“

„Við verðum að vera dugleg að hlusta og læra,“ sagði Friðrik Jónsson, formaður BHM. „Það er augljóst að hér er samfélag fullt af ómeðvitaðri hlutdrægni sem stundum má kalla rasisma. […] Við þurfum að venja okkur betur við það að við erum komin með samfélag sem er miklu fjölbreyttara en það nokkurn tímann var og það er ekki okkar hérna, þessara fölbleiku, að segja þeim sem eru ekki fölbleikir, hvernig þeir eigi að upplifa okkar samfélag.“