„Sjávarútveginum hefur almennt vegnað vel en ég bendi á að sjávarútvegurinn er mjög svo sveiflukennd atvinnugrein, sagan sýnir okkur það. Auk þess hafa veiðiheimildir dregist verulega saman,“ segir Þorsteinn Már um hvort greinin leggi nóg fram til samneyslunnar.

„Varðandi auðlindagjaldið, þá verðum við að hafa það í huga að gjaldið er beintengt afkomu miðað við árið á undan, sem er skynsamleg leið. Gjaldið hækkar sem sagt þegar vel gengur. Hversu hátt það á að vera er alfarið ákvörðun stjórnvalda hverju sinni,“ bætir Þorsteinn Már við.

Fréttablaðið greindi frá methagnaði útgerðarfyrirtækja í gær. Eiginfjárstaða útgerðarmanna hefur aukist um meira en hundrað milljarða á nokkrum árum og voru umsvif kvótakónga sem ná yfir á fleiri svið samfélagsins til umræðu.

„Mér finnst orðræðan um íslensk fyrirtæki sem stunda veiðar og vinnslu á köflum svolítið skrýtin. Það á að þrengja að fyrirtækjum sem eru í veiðum og vinnslu á villtum fiski og kallað er eftir því að þau verði brotin upp,“ segir Þorsteinn Már.

Hann bendir á að á sama tíma vaxi laxeldisfyrirtækin hratt og séu stærri en stærstu hefðbundnu sjávarútvegsfyrirtækin.

„Þessi laxeldisfyrirtæki eru í meirihlutaeigu Norðmanna, sem voru tilbúnir til að koma með þolinmótt fjármagn og þekkingu inn í greinina.“

Þorsteinn Már segir mikilvægt að ná sátt um sjávarútveg. Honum líst ekki illa á hugmyndir Svandísar Svavarsdóttur að svo komnu máli.

„Sífelldar deilur um umgjörð sjávarútvegsins eru á margan hátt skaðlegar greininni, þannig að ég fagna því að sjávarútvegsráðherra skipar samráðsnefndir sem ætlað er að fara yfir starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja. Ég býst ekki við öðru en að allir þættir verði skoðaðir gaumgæfilega og nefndirnar skili niðurstöðu sem hægt er að byggja á til framtíðar, enda verður atvinnulífið að geta horft nokkur ár fram í tímann þegar ákvarðanir um fjárfestingar eru teknar.“

Þorsteinn Már bendir á að fjárfestingar í sjávarútvegi séu gríðarlega kostnaðarsamar, svo sem fiskvinnslur og skip. Samherji hafi fjárfest fyrir 25 milljarða króna í landvinnslum og skipum á síðustu fimm árum. Nýtt hátæknifiskvinnsluhús kosti um 10 milljarða og ný hátæknifiskimjölsverksmiðja um 20 milljarða.

„Þetta eru fjárfestingar sem eru nauðsynlegar til að reka tæknivæddan sjávarútveg í fremstu röð á heimsvísu.“

Þorsteinn Már segir að hafa verði í huga að íslenskur sjávarútvegur keppi á alþjóðlegum mörkuðum, þar sem gerðar séu kröfur um gæði, stöðugleika og afhendingaröryggi. Þrátt fyrir tal um risa hér teljist íslensku fyrirtækin ansi lítil úti í heimi.

Svandís Svavarsdóttir sagði á Fréttavaktinni á Hringbraut í gær að hún brynni fyrir auknu réttlæti í sjávarútvegi. Hún segist hafa verið óhrædd við að tækla erfið mál og boðar gagnsæi í vinnu starfshópa sem hún er að skipa og er ætlað að leggja til breytingar á kerfinu.